Innlent

Fjárdráttur nemur þriðjungi af sóknargjöldum

Ingimar Karl Helgason skrifar

Fjárdrátturinn í Hvítasunnukirkjunni nemur um þriðjungi af öllum sóknargjöldum sem safnaðarmeðlimir hafa greitt undanfarin sex ár. Fyrrverandi framkvæmdastjóri sem hefur játað fjárdráttinn, segist ekki vita hvort hann geti endurgreitt, en kirkjan krefst bóta. Honum verður fyrirgefið, segir talsmaður Hvítasunnukirkjunnar.

Upp hefur komist um 25 milljóna króna fjárdrátt hjá Hvítasunnukirkjunni hér á landi. Fyrrverandi framkvæmdastjóri hefur játað að hafa dregið sér féð á sex ára tímabili.

Um tvö þúsund manns eru í hvítasunnukirkjunni, en hún starfar víða um land. Sóknargjöld til kirkjunnar hafa verið upp undir fimmtán milljónir króna á ári; ef við miðum við þetta ár. Í allt hafa safnaðarmeðlimir greitt milli áttatíu og níutíu milljónir króna í sóknargjöld á þessum árum. Fjárdrátturinn nemur því um þriðjungi af öllum sóknagjöldum sem sóknarbörn Hvítasunnukirkjunnar hafa greitt; og enn fremur næstum öllum sóknargjöldum í tvö ár. Hvítasunnukirkjan ætlar að krefjast bóta af framkvæmdastjóranum fyrrverandi.

Fréttastofa ræddi í morgun við framkvæmdastjórann fyrrverandi. Hann vildi sem minnst ræða málið, en sagði þó óvíst að hann gæti endurgreitt kirkjunni. Ekki kom fram til hvers hann notaði það.

Upp komst um fjárdráttinn þegar gerð var allsherjar endurskoðun á fjárreiðum kirkjunnar. Í ljós kom að ársreikningar kirkjunnar hafa verið byggðir á misvísandi gögnum, gagngert, segir í tilkynningu Hvítasunnukirkjunnar, til að fela fjárdráttinn. Þannig hafi réttum upplýsingum verið haldið frá endurskoðanda kirkjunnar, sem vann reikningana samkvæmt bestu vitund. Málið hefur verið kært til lögreglu.

Gísli Freyr Valdórsson, talsmaður Hvítasunnukirkjunnar, segir að framkvæmdastjóranum fyrrverandi verði fyrirgefið.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×