Skoðun

Að ná áttum og sáttum

Guðrún Karlsdóttir skrifar
Hún var 28 ára þegar hún fékk nóg. Hún var búin að vera með honum síðan hún var 16 og hann 18. Það voru næstum þrjú ár síðan hana hafði langað til þess að sofa hjá honum. Hann var góður maður. Hann hafði alltaf reynst henni vel. Hún gat bara ekki elskað hann lengur. Það versta var að hún hafði enga afsökun. Hún óskaði þess stundum að hann héldi framhjá henni eða gerði eitthvað sem gæti réttlætt ákvörðunina.

Hún var með svo mikla sektarkennd. Ekki bætti úr skák að allir vinirnir og fjölskyldan höfðu skoðun á þessu. Öllum fannst svo leiðin­legt að þau væru að skilja. Öllum fannst þau svo frábær saman og fannst að hún gæti alveg lagt aðeins meira á sig. Enginn skildi hennar tilfinningar. Enginn setti sig í hennar spor. Hún fékk engan stuðning þegar hún tók erfiðustu ákvörðun lífs síns.

Hann var 36 ára þegar hann gat ekki lengur lokað augunum fyrir staðreyndunum sem blöstu við. Það var augljóst að hún hélt framhjá honum. Þegar hann hafði safnað í sig kjarki og spurt hana beint út fékk hann öll svörin sem hann hafði óttast mest. Hún hafði verið í sambandi við annan mann í þrjú ár. Hún var þó ekki viss hvort hún vildi hann eða hinn. Hún stakk upp á fjölskylduráðgjöf og þau fóru í tvo tíma. Í öðrum tímanum var ljóst að hún vildi bara halda þeim báðum. Hún vildi ekki skilja en hún vildi ekki heldur hætta með hinum. Þetta voru myrkustu mánuðir lífs hans. Hann vissi varla mun á nóttu og degi. Hann hætti að geta borðað. Hann bara grét.

Hann skildi hana samt svo vel að vilja einhvern annan en hann. Hann var svo sem ekki merkilegur pappír. En hann hafði alltaf elskað hana. Það hafði ekkert breyst. Oft langaði hann mest að láta bara sem ekkert hefði í skorist og horfa í hina áttina. Það var svo erfitt að skilja, að rífa sig upp frá öllu sem var kunnuglegt og halda út í óvissuna.

Að lokum gat hann ekki annað en farið. Hann gat ekki látið koma svona fram við sig. Þegar hann loksins skildi kom í ljós hverjir voru virkilegir vinir hans.

Hún var 42 ára þegar hún loksins fór frá honum. Þau höfðu verið saman frá því bæði voru 25 ára. Hún varð ólétt nánast um leið og þau kynntust og þá giftu þau sig, keyptu hús og byrjuðu í baslinu. Fljótlega kom annað barn en síðan liðu fimm ár þar til litli kúturinn fæddist. Það var þegar hún var ólétt af honum sem hann sló hana fyrst. Hún fékk svo sem ekki mikið áfall. Hann hafði alltaf verið ógnandi í framkomu þegar hann drakk og oft hafði hann hótað að leggja hendur á hana. Þetta var bara sjálfsagt framhald af öllu saman.

Það tók hana tíu ár, frá fyrsta högginu, að koma sér í burtu. Hún vildi alltaf gera það sem börnunum var fyrir bestu og hún vildi líka svo gjarnan hjálpa honum. Það tók hana tíu ár að átta sig á því að hún gæti aldrei hjálpað honum. Það tók hana líka tíu ár að viðurkenna að hjónabandið væri ekki það besta fyrir börnin.

En það var svo erfitt þegar vinirnir og vinkonurnar virtust ekki almennilega trúa henni. Þau létu stundum í það skína að hún væri bara að búa þetta til. Meira að segja mamma hennar og pabbi voru lengi vel á hans bandi. Hann hafði nú alltaf verið svo góður þrátt fyrir allt.

Þessar sögur gætu allar verið sannar.

Munur á sorg vegna dauðsfalls annars vegar og skilnaðar hins vegar getur falist í afleiðingum og viðbrögðum umhverfis. Við fráfall maka fær eftirlifandi jafnan samúð og umhyggju. Sá sem lést er horfinn að eilífu. Við dauðsfall eru fyrir hendi skýrar reglur og hefðir um það hvernig hinn látni eða hin látna er kvödd. Það undir­strikar missinn og veitir farveg fyrir sorgarúrvinnslu og samúð til eftirlifandi. Oft verða margir til þess að veita hjálparhönd, bæði fagaðilar, ættingjar og vinir.

Við skilnað geta viðbrögð umhverfis verið afar breytileg. Margir mæta skilningi og hlýju, aðrir geta mætt andúð og jafnvel fordæmingu. Sumir missa samband við fyrrverandi tengdafjölskyldu og vini, jafnvel börn sín. Mikill söknuður og sorg getur fylgt í kjölfarið. Það að horfa upp á fyrrverandi maka með nýjum lífsförunaut getur valdið óbærilegri þjáningu. Sorgin og sorgarferlið verður oft blandin reiði og höfnunartilfinningu sem erfitt getur reynst að vinna úr og jafna sig á. Þetta getur leitt af sér beiskju og einmanaleika. Þá getur þjóðfélagsstaða og efnahagur breyst mikið og skipting eigna raskað fjárhag illilega.

Stór hluti af daglegu lífi í söfnuðum landsins gengur út á að ganga með fólki sem hefur misst. Þetta á jafnt við um fólk sem hefur misst vegna andláts og skilnaðar. Bæði er unnið með fólki í einstaklingsviðtölum og í sjálfshjálparhópum en það form hefur reynst vel þegar kemur að sorgarúrvinnslu. Í sorgarhópum og sjálfstyrkingar­hópum fyrir fráskilda gefst einstaklingum tækifæri til þess að kynnast öðrum sem hafa svipaða reynslu að baki, deila reynslu sinni og styðja hvert annað í því að ná áttum og sáttum.




Skoðun

Sjá meira


×