Erlent

Ástandið verra í grennd við Port au Prince

Upplýsingar um ástand mála í bæjum og borgum í grennd við Port au Prince á Haítí eru farnar að berast og benda þær til að eyðileggingin sé meiri þar en í höfuðborginni. Enn gengur erfiðlega að koma nauðsynlegum hjálpargögnum til íbúa Haítí en hundruð þúsunda hafa varla fengið vott né þurrt síðan á þriðjudag.

Verst er ástandið í borginni Leogane, 30 kílómetrum vestur af Port au Prince, en fréttamaður BCC sem þar er staddur segir að 90% allra húsa í borginni hafi hrunið í skjálftanum á þriðjudaginn og 20 til 30 þúsund manns hafi farist.

Lítil sem engin hjálp hefur borist til borgarinnar þar sem hjálparsamtök virðast hafa einbeitt sér að höfuðborginni Port au Prince. Íbúar Leogane hafast við á ökrum í útjaðri borgarinnar og bíða eftir hjálp.

Stærsta vandamál hjálparstarfsmanna á Haítí í augnablikinu er ekki skortur á nauðsynjavörum. Heldur hversu flókið það er að koma öllum þeim hjálpargögnum sem send hafa verið til landsins til þeirra sem eru þurfandi. Höfnin í höfuðborginni er óstarfhæf og flugvöllurinn annar ekki umferðinni.

Það hjálpar ekki til að Haíti er í raun stjórnlaust. Þrír ráðherrar úr ríkisstjórn landsins létu lífið í skjálftanum og nokkrir þingmenn að auki. Forsætisráðherrann hefur sofið í bílnum sínum síðan á þriðjudag því húsið hans hrundi. Og ekki voru innviðir stjórnkerfis þessa fátæka lands traustir fyrir.

Sem fyrr er heildartala látinni á reiki en varla hafa færri en 100 þúsund manns látist.

Þeir sem stýra hjálparstarfinu á Haítí leggja mikið upp úr því að gera lítið úr óeirðum og gripdeildum en fréttamenn á vettvangi segja að um eitt þúsund manns hafi tekið þátt í götubardögum sem brutust út í Port au Prince í gær. Óeirðir sem þessar eru afleiðingar vaxandi óánægju á meðal íbúa sem varla fengið vott né þurrt síðan á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×