Skoðun

Óvirkur guðleysingi fellur

Karl Ægir Karlsson skrifar

Ég hef aldrei trúað á neinn þeirra þúsunda guða sem menn hafa tilbeðið, lifað og dáið fyrir. Fyrst fann ég fyrir eigin trúleysi í fermingarfræðslu. Presturinn talaði um upprisuna; hann var afgerandi vandaður maður og vænn. Ég hugsaði með mér að það gæti ekki staðist að hann, né nokkur annar maður, tryði þessu. Ég hef samt aldrei fyrr en nú fundið hjá mér þörf til þess að kvarta undan ríkiskirkjunni Íslensku. Utan nokkrar snerrur við (yfirleitt áhugalausa) kunningja. Þessar snerrur urðu þó til þess að ég þumbaðist í gegnum bíblíuna (það tók lungað af frítímanum á lélegri netavertíð). Það var samhengislaus lesning og furðuleg.

Við nám í bandaríkjum man ég fyrst eftir að hafa, annars vegar, hitt manneskjur sem ég trúði að trúðu, og, hins vegar, kynnst kirkjum sem voru beinlínis skaðlegar. Þetta helst í hendur. Dæmi um kenningar sem boðaðar eru í skaðlegum kirkjum eru: kvenhatur, hommahatur og kynþáttahyggja. Hófasamari kirkjur boða líka margar sköpunarkenningu og hafna þróunarkenningu og kenningu um miklahvell. Og nánast allar fylkja sér gegn fóstureyðingum, hjónaböndum samkynhneigðra og stofnfrumurannsóknum. Vatíkanið er einnig ekki saklaust heldur; þar á bæ hafa menn haldið hlífiskyldi yfir barnaníðingum og barist gegn notkun smokka í afríku og með því aukið við eyðnipláguna. Stuðningur bandaríkjamanna við seinasta stríð sem þeir lögðu í var einnig alger í þeim kreðsum sem hvað ákafast sækir kirkjur en hverfandi hjá þeim sem gera það ekki. Allir söfnuðir hafa líka þróað með sér algert ónæmi fyrir vísindalegum staðreyndum - sem eitt og sér er skaðlegt. Þjóðkirkjan okkar er þó augljóslega margfalt betri en þetta.

Í Bandaríkjunum stóð ég mig jafnvel við að ljúga uppá mig trú. Þar var stundum hreinlega ekki í leggjandi að segja sannleikann. Ég hef sem sagt verið óvirkur guðleysingi.

Fyrir skemmstu kynnti mannréttindaráð Reykjavíkur sanngjarnar tillögur sem var ætlað að greina á milli trúboðs og trúarbragðafræðslu í grunnskólum og leikskólum. Tillögurnar eru varla annað en sjálfsagðir mannasiðir, þó líklegast megi fínpússa orðalagið. Og af þremur ástæðum hefði ég haldið að þessar tillögur fengju litla athygli. Í fyrsta lagi, vegna almennrar samstöðu um að standa þurfi vörð um trúarbragðafræðslu því slæleg kennsla í trúarbrögðum felur í sér alvarlegan menntunarskort. Í öðru lagi, vegna þess að almennilegt grenjandi trúboð er afar fátítt í skólum landsins því hefðu reglubreytingar lítil áhrif á þjóðkirkjuna. Og í þriðja lagi, hafi eitthver núningur orðið mun hann aukast mjög á næstu árum því eru skýrar reglur nauðsynlegar. En viðbrögðin voru mögnuð. Helgislepjan rann hratt af prestunum okkar. Menn sem þurfa áratugi til þess að taka á kynferðisbrotum eða að móta afstöðu til mannréttinda samkynhneigðra, svöruðu strax. Það má víða í fjölmiðlum finna máttlaus mótrökin í löngu, tyrfnu, máli. Ofstæki trúleysingjanna og meint andúð á kirkjunni ber þar víða að góma. Öðru hverju minntu þeir mig á kollega sína í bandaríkjunum. Hér vil ég, af hógværð, bera til baka ofstækið og andúðina sem borin er á okkur trúleysingjanna.

Í fyrsta lagi þá efast ég um að það sé gagnlegt (eða yfirleitt rökrétt) að flokka menn eftir því sem þeir trúa ekki. Við nafni minn Sigurbjörnsson erum báðir guðleysingjar, ef horft er til guðanna Ra eða Seifs og trúleysingjar ef horft er til jarðmiðjukenningarinnar. Eða það hlýtur vera. Þessar staðreyndir segja hinsvegar ekki neitt um okkur. Í öðru lagi þá er það ekki ofstæki að leggja ekki trúnað við furðulegar frásagnir. Það er ekki ofstæki að hafna að jörðin hafi verið sköpuð fyrir innan við 10 þúsund árum, við vitum betur; Adam og Eva voru ekki til, við vitum betur; heilagir andar geta ekki börn, við vitum betur. Eða hvað þá: að Jesú hafi látið sig fæðast (ekki gleyma hann er líka Guð og heilagur andi), látið sjálfan sig verða fyrir pyntingum (til þess að ná eyrum sjálfs síns), látið svo drepa sig (fyrir mig meðal annars!), gengið svo aftur og loks stigið til himna. Við vitum betur. Trúboð felst meðal annars í að normalisera svona steypu fyrir manneskjum meðan enn eru ungar. Það er ekki ofstæki að æskja þess boðun þessara kenninga fari fram utan skólatíma. Ég velti því reyndar fyrir mér hvort að allir þjóðkirkjumenn, þó sannkristnir séu, vilji fórna óðum fækkandi kennslustundum fyrir trúboð eða bænaskak.

Ekki nóg með að, rökrétt, höfnun fáranlegra sagna bíblíunnar (eða annarra helgra rita) sé flokkað sem ofstæki, heldur er líka ólöglegt að færa höfnunina í letur. Guðlast er glæpur samkvæmt íslenskum lögum. Glæpur án fórnarlambs en glæpur engu að síður. Ef með þyrfti, myndi ég engu að síður berjast fyrir því að trúmenn geti stundað trú sína. Bara í sínum tíma (og á eigin reikning). Því, eins og títt er um trúleysingjanna, beinist andúðin að skoðanakúgun og hverslags hindrunum á frjálsri hugsun, frálsri tjáningu og frjálsri þekkingarleit. Við guðleysingjar erum eins og þið öll hin - nema að við göngum bara einum guði lengra. Í því felst ekki ofstæki gegn guðum. Og í því felst ekki andúð á kirkjum. Að hafna trúboði í grunnskólum og leikskólum er rökrétt, fordómalaus og hófstillt skoðun.

Höfundur er vísindamaður.






Skoðun

Sjá meira


×