Erlent

Mikil hætta á að sólstormur lami netsamskipti heimsins

Mikil hætta er á að öflugur sólstormur muni lama öll netsamskipti í heiminum mánuðum saman í náinni framtíð.

Það eru breskir vísindamenn sem vara við þessari hættu en samkvæmt þeim mun sólstormurinn skella á jörðinni árið 2013 þegar aldalöng sveifla í virkni þessarar storma nær hámarki sínu.

Fyrir utan að lama öll netsamskipti í heiminum gæti hann slegið út háspennulínur, farsíma, GPS kerfi sem og gervihnetti og truflað flugumferð.

Hættan er tekin það alvarlega að Liam Fox varnarmálaráðherra Bretlands hefur varað við því ástandi sem gæti komið upp. Fox segir að eftir því sem tæknin á jörðinni verður flóknari eykst hættan á truflunum á henni.

Í frétt um málið í Jyllands Posten segir að vísindamenn hjá NOA, bandarísku Haf- og loftslagsstofnuninni, hafi þegar varað við sólstormum á borð við þennan fyrir þremur árum síðan.

Í blaðinu kemur fram að árið 2003 olli sólstormur því að rafmagn sló út um tíma hjá 20.000 heimilum í Malmö í Svíþjóð og samband rofnaði við japanska gervihnetti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×