Innlent

Bílasala glæðist

Höskuldur Kári Schram skrifar
Sala á nýjum bifreiðum hefur verið að aukast. Formaður Bílgreinasambandsins telur botninum sé náð og að bílasala muni aukast um allt að 40 prósent á næsta ári.

Bílamarkaðurinn hefur farið mjög illa út úr kreppunni og nánast hrundi á síðasta ári.

Árið 2005 var eitt það besta í sögunni en þá keyptu íslendingar rúmlega 18 þúsund nýja fólksbíla. Í fyrra seldust rétt rúmlega tvö þúsund bílar en salan hefur hins vegar verið að aukast á þessu ári.

Það var talað um það í fyrra að markaðurinn hefði hrunið, er botninum náð?

„Við erum alveg sannfærðir um það að botninum er náð og botninn var í fyrra. Það verður ekki aftur svo að við séum að skrá hér rétt rúmlega tvö þúsund bíla," segir Sverrir V. Hauksson formaður Bílgreinasambandsins.

Það eru þó ekki einstaklingar sem hafa verið að kaupa nýja bíla í ár heldur einkum fyrirtæki og þá helst bílaleigufyrirtæki.

„Það er svona meginhlutinn af því sem er að gerast núna. Hlutfall fyrirtækja á móti einstaklingum í skráningu þessa árs er miklu miklu hærra heldur en í svona normal ári, þegar við horfum til áranna 2004, 5 og 6. Þá var miklu hærra hlutfall af skráðum fólksbílum á einstaklinga heldur en er núna."

Sverrir telur að salan í ár fari upp í þrjú þúsund bíla og reiknar með frekari aukningu á næsta ári.

„Spár bílaumboðanna sem ég hef heyrt, þær liggja svona á bilinu þrjú til fimm þúsund bílar. Ég gæti trúað að markaðurinn muni liggja einhversstaðar þarna á milli, svona kringum fjögur þúsund bíla fjögur til fimm þúsund bílar í besta falli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×