Erlent

Vill atkvæðagreiðslu án tafar

Barack Obama
Stendur enn í ströngu við að koma heilbrigðisfrumvarpinu í gegnum þingið.
Barack Obama Stendur enn í ströngu við að koma heilbrigðisfrumvarpinu í gegnum þingið.

Barack Obama Bandaríkjaforseti berst enn við að koma endanlegri mynd á heilbrigðisfrumvarpið, sem á að tryggja nánast öllum Bandaríkjamönnum sjúkra- og slysatryggingar.

Nú síðast á miðvikudaginn hvatti hann þingmenn beggja deilda Bandaríkjaþings til þess að ljúka þrasi sínu um málið sem staðið hefur í heilt ár.

„Það sem er í húfi er ekki aðeins geta okkar til að leysa þetta vandamál, heldur geta okkar til að leysa hvaða vandamál sem er,“ sagði Obama í ræðu í Hvíta húsinu.

Bæði öldungadeild og fulltrúadeild þingsins samþykktu frumvarpið fyrir jól, en í tveimur mismunandi útgáfum. Síðan þá hefur repúblikönum fjölgað í öldungadeildinni og nokkrir demókratar í fulltrúadeild hafa skipt um skoðun, þannig að óvíst er hvort þinginu tekst að afgreiða sameiginlega útgáfu frumvarpsins nema í mjög breyttri mynd, með mun veigaminni breytingum á tryggingakerfinu en Obama og leiðtogar Demókrataflokksins höfðu vonast til.

Obama fer nú fram á að þingið greiði atkvæði um málið á næstu vikum, þar sem niðurstaðan ræðst eingöngu af afstöðu þingmanna til frumvarpsins eins og það kemur fyrir, án þess að draga afgreiðsluna á langinn með málþófi.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×