Erlent

Þjófarnir hringdu sjálfir í lögregluna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglunni í Danmörku var næstum skemmt í nótt. Tveir seinheppnir menn brutu rúðu í húsi á Vestergade í bænum Tønder. Því næst fóru þeir óboðnir inn í húsið. Það vildi þó ekki betur til en svo að annar þjófanna missti jafnvægi og skar sig á brotnu rúðunni.

„Það var mjög mikið blóð á staðnum," er haft eftir varðstjóra hjá jósku lögreglunni á vefnum jv.dk. Þjófarnir höfðu auk þess svo mikinn hávaða að nágranni heyrði í þeim og sá þá yfirgefa vettvang. Þjófarnir voru á bak og burt þegar að lögreglan náði þeim. Hins vegar var hringt í 112 úr húsi í nágrenninu þar sem tilkynnt var að maður hefði skorið sig. „Og við erum náttúrlega ekki heimskari en svo að við gátum áttað okkur á því að þetta voru þeir," sagði varðstjórinn.

Mennirnir, sem eru tvítugir, voru báðir handteknir. Annar þeirra fékk þó að líta við á slysadeild áður en lengra var haldið.

Danmarks Radio greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×