Viðskipti innlent

Útlendingar sýna MP banka áhuga

Þorbjörn Þórðarson. skrifar
Ragnar Þórir Guðgeirsson
Ragnar Þórir Guðgeirsson

MP banki þarf þrjá milljarða í formi nýs eigin fjár til að uppfylla kröfur FME um eigið fé. Bankinn á núna í viðræðum við þrjá aðskilda fjárfestahópa og eru útlendingar þar á meðal.

„Ég get mjög lítið sagt á þessu stigi. Þetta mun skýrast á næstu vikum nánar og hvernig hinn endanlegi eigendahópur verður. Þetta eru þrír leiðandi aðilar sem taka hóp fjárfesta með sér. Þetta eru þrískiptar viðræður milli stjórnarinnar og þessara aðila," segir Ragnar Þórir Guðgeirsson, stjórnarformaður MP banka.

„Frá upphafi höfum við lagt upp með það að þetta yrðu þrír milljarðar í auknu hlutafé, en þetta gæti orðið fjórir og hálfur. Þetta ræðst dálítið af útfærslu. Við gerðum ráð fyrir því að hlutafé sem kæmi inn yrði aldrei minna en þrír milljarðar króna. Þetta eru íslenskir og erlendir aðilar í þessum hópum," segir Ragnar. Hann er ekki tilbúinn að gefa upp hvers lenskir hinir erlendu fjárfestar eru.

Vegna krafna Fjármálaeftirlitsins

En hvers vegna eru þetta þrír milljarðar sem ykkur vantar? „Það eru settar ákveðnar kröfur hjá FME um styrkingu eiginfjárgrunns. Það er hægt að gera það með ýmsum hætti, það er hægt að breyta áhættuprófíl eða styrkja eigið fé. Við settum fram okkar áætlun um styrkingu eigin fjár og það var mat okkar að það væru þrír milljarðar króna sem þyrfti til að bankinn gæti haldið áfram að vaxa. Þetta er samspil af eignasamsetningu banka og eiginfjárgrunni sem þarf alltaf að huga að."

FME gerði kröfu um að MP banki legði fram raunhæfa áætlun um styrkingu eigin fjár og gaf bankanum sex mánuðði til slíks, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. „Það sem við erum að vinna eftir núna er okkar áætlun. Hún tók mið að því að við myndum vinna að þessu fram til áramóta. Við teljum að það sé góður gangur í þessu og munum gera FME grein fyrir þessu jafnóðum," segir Ragnar.


Tengdar fréttir

Tap MP banka 1,9 milljarðar á fyrri helming ársins

MP banki skilaði 1,9 milljarða kr. tapi á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta kemur fram á vefsíðu bankans Þar sem greint er frá stöðu hans í ljósi fregna að undanförnu um að bankinn uppfylli ekki skilyrði Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárhlutfall.

Eigið fé MP Banka er undir lágmarki FME

MP banki hefur ekki birt uppgjör fyrir fyrri helming ársins. Eigið fé bankans er undir þeim mörkum sem Fjármálaeftirlitið (FME) hefur sett honum, en bankinn hefur sent uppgjör sitt þangað til yfirferðar. Þetta kom fram í fréttum RÚV í gærkvöldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×