Erlent

Ahmadinejad stingur upp á fangaskiptum

Mahmoud Ahmadinejad forseti Írans segir að bandarískum bakpokaferðalöngum sem verið hafa í fangelsi í landinu um hríð, verði sleppt láti Bandaríkjamenn íranska fanga lausa úr haldi. Þetta kom fram í sjónvarpsviðtali við forsetann í dag. Hann segir að samningaviðræður standi nú yfir um fangaskiptin og að menn séu vongóðir um að úr rætist.

Ahmadinejad tiltók ekki sérstaklega hvaða írönsku fanga hann væri að tala um en í desember á síðasta ári gáfu írönsk yfirvöld út lista með nöfnum ellefu Írana sem sagðir eru í haldi bandarískra yfirvalda. Þar á meðal er íranskur kjarnorkusérfræðingur sem hvarf í Sádí Arabíu og hátt settur maður í varnarmálaráðuneyti Írana sem hvarf í Tyrklandi.

Þau Shane Bauer, Sarah Shourd og Josh Fattal voru á göngu í Kúrdistan í norðurhluta Íraks í júlí í fyrra þegar þau eru sögð hafa farið inn fyrir írönsku landamærin fyrir mistök. Þau hafa verið í fangelsi síðan og gætu átt yfir höfði sér dóma fyrir njósnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×