Skoðun

Stjórn fiskveiða

Björn Valur Gíslason skrifar
Niðurstaða starfshóps um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða liggur nú fyrir. Tilgangur með skipun hópsins var að skilgreina helstu álitaefni sem fyrir eru í löggjöfinni, láta vinna nauðsynlegar greiningar og leggja fram valkosti til úrbóta. Markmiðið var að leggja grunn að nýrri og betri löggjöf sem skapaði sjávarútveginum góð rekstrarskilyrði til langs tíma og að sem víðtækust sátt yrði um fiskveiðistjórnunina meðal þjóðarinnar.

Starfshópurinn skilaði skýrslu til sjávarútvegsráðherra með niðurstöðum sínum um einstök mál og gerði tillögur til úrbóta í þeim álitaefnum sem uppi hafa verið í greininni. Auk þess leggur hópurinn fram valkosti um leiðir við stjórn fiskveiða til langs tíma og líklegt er að sem mest sátt geti verið um.

MeginniðurstöðurÍ stuttu máli er meginniðurstaðan sú að allir aðilar starfshópsins að undanskildum LÍÚ eru þeirrar skoðunar að í stjórnarskrá lýðveldisins verði skýrt kveðið á um að fiskistofnar við landið séu sameign þjóðarinnar. Um þetta er þverpólitísk niðurstaða allra flokka á Alþingi og fullt samkomulag allra hagsmunaaðila í sjávarútvegi - nema LÍÚ. Sjónarmið þeirra sem hafa haldið því fram að fiskurinn í sjónum sé séreign tiltekinna aðila hafa því beðið fullkomið skipbrot. Aðeins rétt rúmt ár er liðið síðan sjálfstæðismenn á Alþingi beittu málþófi og tóku þingið í gíslingu til að koma í veg fyrir að gerðar yrðu breytingar á stjórnarskrá landsins í þessa veru. Nú hafa þau sjónarmið verið brotin á bak aftur og þverpólitísk samstaða orðin um meðferð málsins.

Í öðru lagi er það niðurstaða meirihluta starfshópsins, að eigandi auðlindarinnar (þjóðin) geti gert tímabundna afnotasamninga við þá sem vilja nýta fiskistofnana við landið gegn gjaldi og tilteknum öðrum skilyrðum. Með þeim hætti er verið að fara álíka leið og farið er með aðrar sameiginlegar auðlindir, þ.e. eignarhaldið sé skýrt og samningar gerðir um tímabundin afnot. Í þriðja lagi er starfshópurinn samhljóða um að aflaheimildum skuli skipt upp í tvo potta. Annar potturinn verði til ráðstöfunar innan aflamarkskerfisins gegn samningum um afnot eins og áður segir en hinn ætlaður til atvinnu- og byggðatengdra aðgerða. Hlutfall þessara tveggja potta verði lögbundið þannig að báðir stækki eða minnki eftir því hvort útgefnar heimildir aukist eða dragist saman hverju sinni. Það er mat mikils meirihluta hópsins að byggða- og atvinnumál verði betur tryggð með þessum hætti frekar en að aflaheimildir verði boðnar upp á markaði á hverju ári eins og gerð hefur verið tillaga um. Stefnulaus hönd markaðarins tekur ekki tillit til slíkra sjónarmiða og virðir engin mörk í því tilliti. Það ættu menn að vera búnir að læra af sárri reynslu í þróun byggðar á Íslandi á undanförnum áratugum. Í fjórða lagi gerir starfshópurinn ítarlega grein fyrir þeim álitaefnum sem uppi hafa verið í sjávarútvegi á síðustu árum og gerir tillögur til úrbóta í þeim efnum. Í því sambandi má nefna að takmarka verði hve stórt hlutfall veiðiheimilda megi vera á einni hendi og kanna þurfi innbyrðistengsl fyrirtækja í sjávarútvegi með það í huga. Starfshópurinn leggur áherslu á að aflahlutdeildir eða tryggur aðgangur að aflaheimildum þurfi að vera tengdur við byggðir til atvinnusköpunar. Starfshópurinn er sammála um að heimild til framsals aflamarks þurfi að þrengja frá því sem nú gildir, afnema eða eingöngu heimila skipti á aflaheimildum. Ef framsal verði leyft fari það fram á vegum opinberra aðila þannig að tryggt sé að aðgangur að heimildum verði jafn öllum sem áhuga hafa. Hér er skiljanlega aðeins drepið á örfáum atriðum í skýrslu starfshópsins sem er bæði yfirgripsmikil og fróðleg aflestrar.

Ný hugmyndafræðiAðalatriðið er að breið samstaða hefur náðst um nýja hugmyndafræði við stjórn fiskveiða og sjónarmiðum þeirra sem farið hafa með þau mál á hinum pólitíska vettvangi undanfarna tvo áratugi, hefur verið vísað frá með afdráttarlausum hætti. Sú samstaða er á milli stéttarfélaga sjómanna, sveitarfélaga, fiskframleiðenda, LÍÚ, Landssambands smábátaeigenda og allra stjórnmálaflokka á Alþingi utan Hreyfingarinnar. Það er sannfæring mín að tillögur starfshópsins verði til að móta nýtt upphaf við stjórn fiskveiða hér á landi. Tillögur hópsins eru að mínu mati vel rökstuddar, byggðar á haldgóðum upplýsingum og til þess fallnar að ná sátt hjá þjóðinni um þessa mikilvægu atvinnugrein og leiða til lykta þau deilumál sem uppi hafa verið í greininni. Á grundvelli vinnu starfshópsins og þeirra valkosta sem hann bendir á mun ráðherra síðan ákvarða frekari tilhögun við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×