Lífið

Mið-Ísland með uppistand á Gljúfrasteini

Ari, Dóri, Jóhann og Bergur í Mið-Íslandi, en hópurinn verður með uppistand á menningarsetrinu Gljúfrasteini á laugardag. Fréttablaðið/GVA
Ari, Dóri, Jóhann og Bergur í Mið-Íslandi, en hópurinn verður með uppistand á menningarsetrinu Gljúfrasteini á laugardag. Fréttablaðið/GVA

Uppistandshópurinn Mið-Ísland mun kitla hláturtaugar manna að Gljúfrasteini klukkan 16 á laugardag. Halldór Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA, segir hópinn ætla að vera með menningarlegt grín þar sem gert er grín að ungskáldum, tónlistarhúsinu og ýmsum þemum úr bókum Guðbergs Bergssonar.

„Okkur fannst mjög viðeigandi að halda uppistand að Gljúfrasteini og höfum séð það í hillingum alveg frá því við stofnuðum hópinn. Ég vann þarna lengi og sá um skipulagningu ýmissa viðburða þar og sá þá að þetta er góður vettvangur fyrir uppistand. Þetta er líka algjör hláturhöll og þarna hefur mikið verið grínast í gegnum tíðina," útskýrir Dóri DNA, sem einmitt er barnabarn Nóbelsskáldsins Halldórs Laxness.

Dóri kemur fram ásamt þeim Jóhanni Alfreð, Ara Eldjárn og Bergi Ebba. Hann hyggst koma fram órakaður og með hatt að hætti ungskálda en segir hina piltana ekki muna gera slíkt hið sama.

„Ég er sá eini í hópnum sem vex almennilega skegg, hinir hefðu þurft lengri fyrirvara ef þeir ættu að geta verið með."

Hann segist viðbúinn fjölmenni en óttast ekki að þurfa að vísa fólki frá sökum plássleysis.

„Það er svo ótrúlegt með þennan sal að það virðist alltaf vera pláss fyrir alla. Þetta er líka fyrsta giggið okkar eftir árshátíð hópsins sem haldin var í Kaupmannahöfn fyrir stuttu og þess vegna mjög viðeigandi að það fari fram að menningarsetrinu Gljúfrasteini."

Aðgangseyrir er 800 krónur og gildir það einnig sem miði inn á safnið. - sm

Hér má sjá myndband þar sem Ari Eldjárn fer á kostum þegar hann hermir eftir Bubba Morthens í útvarpsþættinum Færibandinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.