Lífið

Sigurjón Sighvats náði De Niro í næstu mynd

Robert De Niro er einn frægasti kvikmyndaleikari sögunnar og hann mun leika eitt aðalhlutverkanna í næstu kvikmynd Sigurjóns Sighvatssonar.
Robert De Niro er einn frægasti kvikmyndaleikari sögunnar og hann mun leika eitt aðalhlutverkanna í næstu kvikmynd Sigurjóns Sighvatssonar.

Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi hefur náð samningum við bandaríska stórleikarann Robert De Niro um að leika í spennumyndinni The Killer Elite. Þar með eru línur að skýrast í þessari ævisögulegu kvikmynd sem byggð er á lífi og starfi sérsveitarmannsins Sir Ranulph Fiennes.

Sigurjón segir nafn De Niro góða viðbót við leikarahóp myndarinnar. „Þetta gefur henni náttúrulega byr undir báða vængi og þetta verður stærsta kynningarmyndin á Cannes, allavega verður þetta sú kvikmynd sem er með stærstu stjörnunum," segir Sigurjón en tökur eru að hefjast í Ástralíu.

Sigurjón, sem hefur unnið með mörgum af stærstu kvikmyndastjörnum heims, viðurkennir að hann sé bæði sæll og glaður með að hafa náð De Niro. „Þetta verkefni lítur vel út. Þótt leikstjórinn, Gary McKendry, hafi ekki áður gert svona stóra mynd þá hefur handritið spurst vel út og umboðsmenn hafa látið sína skjólstæðinga vita af því. Það segir sitt ef De Niro ákveður að leika í myndinni," segir Sigurjón.

Varla þarf að hafa mörg orð um feril De Niro. Eftir hann liggja margar af frægustu persónum kvikmyndasögunnar, svo sem Travic Bickle úr Taxi Driver og Vito Corleone úr Godfather 2.

Auk De Niro leika þeir Jason Statham og Clive Owen í myndinni auk Dominics Purcell, þekktastur fyrir leik sinn í Prison Break. Eins og áður segir er myndin byggð á ævisögu Sir Ranulphs Fiennes sem kom út árið 1993 og olli miklu fjaðrafoki á sínum tíma. Enda upplýsti Fiennes þá um tilveru SAS-sérsveitanna sem bresk stjórnvöld höfðu þvertekið fyrir að væru til. - fgg








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.