Skoðun

Nokkur atriði um fé… og fólk

Ágúst Már Garðarsson skrifar

Í ljósi umræðu um fjárlög Reykjavíkurborgar síðustu daga hef ég ákveðið að skrifa nokkur orð til að reyna að leiðrétta rangfærslur og hártoganir sem settar hafa verið fram.

Fjárlög Reykjavíkurborgar 2011

Þessi fyrsta fjárlagagerð sem ég hef komið að hefur verið löng og ströng og kostað miklar vangaveltur, ekki að við vorkennum okkur fyrir það síður en svo. Ekki bara erum við mörg ný í gerð fjárlaga frá Besta flokknum heldur vill svo til að við gerum fjárlög þegar loka þarf mjög stóru gati í fjárlögum Reykjavíkur. Það kemur til bæði af auknum kostnaði og sérstaklega vegna minnkandi tekna, einnig eru nokkrir óvissuþættir fram undan í skipulagsmálum sem gætu kostað fé. Því er vissara að eiga varasjóð og getu til að bregðast við slíkum málum sem koma upp.

Orkuveita Reykjavíkur og meintir 17 milljarðar

Við í nýjum meirihluta í Reykjavík hófumst tafarlaust handa við að hjúkra OR aftur til heilsu. Á aðeins sex mánuðum hefur stjórnendum OR sem eru sérstaklega valdir til verksins vegna faglegrar kunnáttu sinnar og sérfræðiþekkingar tekist að lyfta grettis­taki í þeim efnum. OR sýnir mikil batamerki og óskemmtilegar aðgerðir í formi uppsagna og gjaldskrárhækkana eru að skila traustum rekstri nú þegar auk þess að skapa tiltrú á fyrir­tækið meðal lánveitenda og annarra viðskiptavina.

Skuldir OR eru um og yfir 200 milljarðar, og lánveitendur hafa krafist þess að Reykjavíkurborg sem ábyrgðaraðili fyrir lánunum eigi handbært fé upp á um 12 milljarða í sjóði til að tryggja afborganir af lánum. Nú hefur verið bent á að Reykjavík eigi um 17 milljarða handbært fé og gæti notað það til að forðast niðurskurð og gjaldskrárhækkanir. Slík umfjöllun er óábyrg og í ætt þess sem hefur verið kallað popúlismi, slíkar aðgerðir eru ekki raunhæfar því þó að núna í nóvember hafi verið til um 17 milljarðar þá þýðir það að um áramót verða á reikningum Reykjavíkur um 12 milljarðar þegar upp er staðið eftir árið. Það er einmitt upphæðin sem við þurfum að eiga vegna OR. Greiningarfyrirtæki orðaði það skemmtilega um daginn þegar sagt var að „tekist hefði að fjarlægja pólitíska áhættu úr fyrirtækinu".

Sett hefur verið fram af hálfu fulltrúa sjálfstæðismanna í borgarstjórn reikniskjal þar sem sett eru saman dæmi um áhrif hækkana á fólkið í borginni. Þar kennir ýmissa grasa.

Þess vegna langar mig að svara tveim spurningum sem koma þeim útreikningum við.

Hvað eru skattar?

Skattar eru gjöld sem hið opinbera innheimtir af þegnum til að halda úti þjónustu, þetta vita flestir. En ýmis gjöld í samfélaginu eru einnig óbeinir skattar, sérstaklega þar sem um er að ræða lögbundna þjónustu. Það á við tildæmis leikskólagjöld og segjum sorphirðugjald. Það skrítna við sorphirðugjald er samt að það er í raun bannað að tapa á því, það á að standa undir sér svo sú hækkun var óumflýjanleg auk þess að í framhaldinu verður farið útí víðtæka flokkun í Reykjavík og þjónustan bætt til muna.

Og hvenær er greitt

fyrir vöru og þjónustu?


Þegar talað er um að hækkun á stökum miðum í sund sem hækkun skatta og byrða á fólk þá gleymist alveg að gera ráð fyrir því að afsláttarkort hækka ekki og langflestir notendur sundstaðanna notast við slík kort. Hitt eru undantekningar og svo sannarlega þegar fólk fer að minnsta kosti tvisvar í mánuði í sund. Einnig hækkar skólamatur­inn, skólamaturinn er ekki lögbundin þjónusta en aftur á móti var það mér persónulega mikið baráttumál að viðhalda og helst auka gæði matar í grunnskólum Reykjavíkur. Skoðaðar voru sparnaðarleiðir en valið var að fara í þessa hækkun og standa vörð um þetta. Í mínum huga er þetta velferðarmál barna og þá sérstaklega þeirra sem búa við atvinnuleysi og erfiðar aðstæður. Til stendur svo að koma til móts við þá sem ekki geta borgað nú sem fyrr en flest ráðum við við þetta. En þessar aðferðir eru í mínum huga sambærilegar við að setja Range Rover í vísitölukörfu Seðlabankans, það myndi skekkja myndina. Fleiri slík dæmi mætti nefna svo sem menningarkort, ferðir í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og Frístundaheimili sem eru þrátt fyrir mikilvægi sitt ekki lögbundin þjónusta og hafa verið afar dýr í rekstri. Fullur metnaður er samt fyrir því að halda því faglega tilboði opnu og bæta það enn frekar

Rúmlega 600 miljóna

aukning í velferðarmálum


Að lokum vil ég nefna viðbætur okkar í velferðarmálum þar sem ég sit sem varaformaður velferðarráðs. Þar höfum við ákveðið að hækka framfærsluna úr 125.540 kr. upp í 149.000 kr. á einstakling sem ber kostnað af húsnæði og hjón og sambýlisfólk hækkar úr 200.864 kr. í 223.500 kr. Þetta kallar á aukið fjármagn og er ég gríðar­þakklátur fyrir þann stuðning sem við höfum hlotið innan meirihlutans til að gera þetta fært. Þarna sýnum við í verki að við bregðumst við vanda þeirra sem úr minnstu hafa að moða.

Verum bjartsýn

Að lokum vil ég þakka Reykvíkingum og öðrum Íslendingum lesturinn og vona að allir hafi það sem allra best á aðventunni. Einnig vil ég rifja upp orð prestanna í Eldorado sem Birtíngur hittir fyrir þegar hann rambar þangað með Altúngu þegar Altúnga spyr þá hvers þeir biðji:

„Biðji??? Við biðjum aldrei um neitt. Við þökkum allan daginn."

Góða helgi.








Skoðun

Sjá meira


×