Handbolti

Siggi Bjarna: Grátlegt að ná ekki báðum stigunum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sigurður Bjarnason, EM-sérfræðingur Vísis.
Sigurður Bjarnason, EM-sérfræðingur Vísis.

Sigurður Bjarnason, EM-sérfræðingur Vísis, segir stöðu íslenska liðsins vera góða þó svo hann hafi viljað sjá strákana landa sigri í dag gegn Króötum.

„Mér fannst þetta vera rosafínn leikur. Ég hefði viljað sjá sigur og það var grátlegt að ná ekki báðum stigunum enda vorum við betri allan leikinn. Það var ótrúlegt að sjá hvað þeir fengu að hanga á boltanum í lokin og skandall að það hafi ekki verið dæmd töf á Króatana," sagði Sigurður en hvað fannst honum um alla brottrekstrana?

„Þegar maður skoðar þá hægt þá voru þeir allir réttlætanlegir fyrir utan síðustu brottvísunina á Sverre. Það er samt ekkert að því að hafa fengið alla þessa brottrekstra, það segir okkur að þeir séu ákveðnir og grimmir eins og þeir eiga að vera.

„Ég er helst ósáttur að við skulum ekki hafa keyrt meira á þá. Við spilum miklu skemmtilegri bolta en Króatar sem spila leiðinlegan göngubolta," sagði Sigurður sem er ánægður með margt af því sem þjálfarinn er að gera.

„Hann er að nota flesta leikmenn liðsins sem er gott. Hann á að halda áfram að gera það. Ég vil sjá Ólaf Guðmundsson koma líka inn. Hann er óþreyttur og hungraður. Horfir á Aron blómstra og vill eflaust gera slíkt hið sama. Þetta er strákur sem þekkir ekkert nema að sigra og ég myndi treysta honum til að taka þátt. Það vantar smá pung í Guðmund að hleypa honum inn.

„Ég vil líka fá að sjá Sturlu spila eitthvað sem og Loga. Ef að Logi er meiddur og fór með út þá er það náttúrulega skandall. Ef hann er ekki meiddur þá á hann einfaldlega að spila eitthvað," sagði Sigurður sem lítur björtum augum á næstu leiki.

„Ég er bjartsýnn á framhaldið. Strákarnir hljóta að vera með mikið sjálfstraust núna en þetta er ekki búið og mótið getur enn klúðrast. Ég trúi því þó ekki að slíkt gerist."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×