Skoðun

Fréttir af ranghverfunni á Vestfjörðum

Herdís Þorvaldsdóttir skrifar
Sagt var frá því með mikilli vandlætingu að búið væri að keyra á 75 kindur það sem af er sumri og flestir keyrðu bara burt frá slysstað. Er að undra. Þar til fyrir nokkrum árum urðu menn að borga bóndanum fyrir skepnuna sem var á þjóðveginum og olli slysinu en bar enga ábyrgð sjálfur.

Ökumaðurinn, sem oft slasaðist fyrir utan tjón á bílnum og tilfinningasjokkið, varð að bera allan skaðann, og borga fyrir trakteringarnar. Eini munurinn í dag, á tuttugustu og fyrstu öldinni, er sá að tryggingarnar (við) borga bóndanum skepnuna. Burtséð frá því hvort við værum búin að borga girðingar báðum megin vegarins fyrir ótalda milljarða bara til að halda skepnunum frá þjóðvegunum.

Þegar ég var formaður landverndarfélagsins Lífs og lands fyrir mörgum árum hringdi í mig maður sem var undrandi á þessu fyrirkomulagi og spurði hvort félagið gæti ekki haft einhver áhrif á þetta óréttlæti. Vinur sinn hefði verið að keyra í Noregi og lent í því að keyra á kind sem hljóp yfir veginn. Samkvæmt íslenskum lögum fór hann á næstu lögreglustöð og bauðst til að borga skepnuna. Þeir spurðu bara hvort hann væri ruglaður, það væri eigandi skepnunnar sem bæri ábyrgð á því að hún ylli ekki slysi á þjóðveginum. Ég talaði við lögfræðing sem sagði að nokkrir sem höfðu orðið fyrir alvarlegu tjóni, hefðu farið í dómstóla en alltaf tapað málunum.

Sauðkindin virðist alltaf hafa fyrsta rétt á landinu. Enn þann dag í dag ráfar hún um friðlönd, fólkvanga, verndarsvæði og útivistarsvæði og hreinsar upp blómgróðurinn sem er þeirra fyrsta val, áður en við förum í sumarfríið. Við þurfum að fara eftir alls konar reglum um umgengni á svæðunum, en plágan á þessu landi okkar, lausaganga búfjár, veldur því að hvergi er ósnortið eða óskemmt land fyrir okkur, nema innan fáeinna svæða sem hafa verið afgirt frá bitvarginum.

Þetta ætti auðvitað að vera öfugt, skepnurnar í girðingum á ábyrgð eigenda sinna. Þá gæti gróður landsins loksins farið að rétta úr kútnum og girðingafárið með öllum sínum kostnaði næstum horfið.

Sauðkindin virðist alltaf hafa fyrsta rétt á landinu. Enn þann dag í dag ráfar hún um friðlönd, fólkvanga, verndarsvæði og útivistarsvæði og hreinsar upp blómgróðurinn.




Skoðun

Sjá meira


×