Skoðun

Framlag til friðar og kynjajafnréttis

Ragna Sara Jónsdóttir skrifar

Fyrir tíu árum fór Kristín Ástgeirsdóttir, núverandi framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, til starfa í Kosovó fyrir Þróunarsjóð Sameinuðu þjóðanna fyrir konur (UNIFEM). Þar vann hún að eflingu stjórnmálaþátttöku kvenna og auknu samstarfi kvennahreyfinga í þessu stríðshrjáða héraði. Kristín var brautryðjandi sem fyrsti íslenski sérfræðingurinn í jafnréttismálum til að starfa með UNIFEM á vegum íslenska utanríkisráðuneytisins en rúmur tugur sérfræðinga hefur fylgt í kjölfarið.

Samstarf utanríkisráðuneytisins og UNIFEM er eitt langlífasta verkefni íslensku friðargæslunnar og þykir samstarfið sérstakt. Í tíu ár hafa íslenskir sérfræðingar starfað fyrir UNIFEM á Balkanskaganum: í Kosovó, í Makedóníu, í Serbíu og í Bosníu og Hersegóvínu. Auk þess hefur utanríkisráðuneytið sent Íslendinga til starfa fyrir UNIFEM í Líberíu, á Barbados og í höfuðstöðvunum í New York. Á sama tíma hefur hlutfall fjárhagslegs stuðnings utanríkisráðuneytisins við UNIFEM aukist margfalt og skilað Íslandi í röð helstu stuðningsríkja sjóðsins.

Landsnefnd UNIFEM á Íslandi var stofnuð 1989 með það að markmiði að vekja umræðu, stunda fjáröflun og stuðla að bættri stöðu og auknum réttindum kvenna í þróunarlöndum og á stríðshrjáðum svæðum. Landsnefnd UNIFEM á Íslandi er ein sautján landsnefnda UNIFEM í jafnmörgum löndum og starfa þær sem frjáls félagasamtök. Með öflugu samstarfi við utanríkisráðuneytið, íslenskan almenning og fyrirtæki hefur félagið stuðlað að bættri stöðu kvenna í þróunarlöndum og á stríðshrjáðum svæðum.

Kaflaskil verða í starfsemi UNIFEM á næstunni því um komandi áramót rennur Þróunarsjóðurinn inn í nýja og öflugri Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdaeflingu kvenna (UN Women). Sú stofnun mun hafa sterkari valdheimildir og meira fjármagn en UNIFEM og er til marks um ríkari áherslu á kynjajafnréttismál innan Sameinuðu þjóðanna en áður. Íslensk stjórnvöld hafa stutt þessa þróun ötullega. Samstarf utanríkisráðuneytisins við UNIFEM mun í framhaldinu flytjast yfir á hina nýju stofnun, UN Women, sem Michelle Bachelet, fyrrverandi forseti Síle, mun veita forystu.

Í dag verður efnt til málþings í Háskólanum á Akureyri frá kl. 10.00-15.00 til að ræða samstarf utanríkisráðuneytisins og UNIFEM, vægi þess og framtíð innan UN Women. Ég vona að sem flestir sjái sér fært að mæta og taka þátt í áhugaverðri umræðu um jafnréttismál og utanríkisstefnu Íslands.

 




Skoðun

Sjá meira


×