Innlent

Þorleifur: Víst niðurskurður í velferðarmálunum

Þorleifur Gunnlaugsson.
Þorleifur Gunnlaugsson.

Þorleifur Gunnlaugsson, fulltrúi VG í velferðarráði segir ekki rétt sem fram kom í máli S. Björns Blöndals, aðstoðarmanns borgarstjóra á Vísi fyrr í dag, að ekki standi til að skera niður í velferðarmálum hjá borginni umfram verðlagsbreytingar. Þorleifur segir að á fundi velferðarráðs í dag hafi verið rætt um að skera niður félagsstarf aldraðra, ferðir aldraðra í sund og í strætó, svo dæmi séu tekin. Þá eigi að skerða greiðslur til skammtímavistunar unglinga og til unglingasmiðja.

„Síðast en ekki síst er stefnt að því að skera niður samninga við sjúklinga- og mannréttindasamtök á borð við Stígamót svo dæmi sé tekið," segir Þorleifur.

Hann segist undrast að aðstoðarmaður borgarstjóra hafi tjáð sig um tillögurnar í dag því að nefndarmenn voru beðnir um að halda trúnað.

„En úr því Björn Blöndal má tala um þetta, þá hlýt ég að mega það líka," segir Þorleifur. Hann segir klárt að gangi þetta eftir sé verið að skera niður meira en sem nemi verðlagsáhrifum, þótt krónutalan sé sú sama.

Þorleifur lagði fram á fundinum í dag tillögur um hækkun fjárhagsaðstoðar. „Hækkunin taki mið af lífskjararannsókn Hagstofunnar fyrir árið 2009 þar sem lágtekjumörkin voru metin kr. 160.800 í ráðstöfunartekjur á mánuði fyrir einstakling. Litið verði á þá upphæð sem lágmark," segir í tillögu Þorleifs. Þá lagði hann einnig til að fjárhagsaðstoð verði ekki skert ef um hjón eða sambýlisfólk sé að ræða. Að endingu lagði Þorleifur til að þegar í stað verði hafist handa við greiningu á stöðu barna í alvarlegum fjárhagsvanda.






Tengdar fréttir

Krafist 3% hagræðingar á leikskólasviði

Leikskólasvið Reykjavíkurborgar þarf að hagræða um 3 prósent samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar. Gert er ráð fyrir talsverðri aukningu barna á leikskólum og fær sviðið því viðbótarframlag að upphæð tæplega 660 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×