Handbolti

Dagur: Stærsta stundin í sögu austurrísks handbolta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Dagur Sigurðsson gerði frábæra hluti með Austurríki á EM.
Dagur Sigurðsson gerði frábæra hluti með Austurríki á EM. Mynd/DIENER/Leena Manhart

Dagur Sigurðsson var afar stoltur af árangri austurríska landsliðsins sem lauk keppni á EM í handbolta í gær.

Austurríki vann þá sigur á Rússum, 31-30, og þar með sinn annan sigur í keppninni. Það dugði liðinu til að ná níunda sæti mótsins, einu ofar en stóri bróðir frá Þýskalandi.

„Þetta er eiginlega algjört rugl og mesta snilldin er eiginlega að við náðum að toppa þjóðverja - eigum við að ræða það eitthvað?" sagði hann og skellihló þegar Vísir ræddi við hann eftir leikinn gegn Rússum í gær.

„Við erum líka að skilja eftir margar aðrar sterkar þjóðir fyrir aftan okkur. Þjóðverja, Svía, Ungverja, Serba og Rússa. Þetta er því í raun alveg ótrúlegt og ég er auðvitað gríðarlega stoltur."

„Þetta er mjög stór dagur fyrir mig enda var ég nú að klára stórt verkefni sem mér var treyst fyrir. Það fyrsta var að komast hingað til Vínar í milliriðilinn og svo standa sig hér. Það tókst."

„Liðið spilaði í raun sex góða leiki á mótinu þó svo að leikurinn gegn Rússum hafi ekki verið besti handboltaleikur í heimi. Mér fannst hann reynda vera lengsti handboltaleikur í heimi. Hann ætlaði aldrei að klárast," sagði hann og brosti.

„Ég held að þetta sé stærsta stundin í sögu austurrísks handbolta. Ég held að þeir átti sig ekki á þessu. Þeir voru að vinna Rússa og ég veit vel hvað það þýðir."

Dagur heldur í dag aftur til Berlínar þar sem hann er þjálfari Füchse Berlin í þýsku úrvalsdeildinni.

„Þar er bara æfing í kvöld. Nú tekur við sú vinna," sagði hann.

Samningur Dags við austurríska handboltasambandið rennur út eftir keppnina en hann hefur áður greint frá því að það vilji halda honum.

„Þetta er ekki bara undir mér komið hvað gerist. Ég mun líklega hitta forráðamenn Füchse í næstu viku og sjá hver staðan er hjá þeim. Þeir þurfa líka að fá að vera með í ráðum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×