Erlent

Önnur jörð komin í leitirnar

Tölvugerð mynd af plánetunni.
Tölvugerð mynd af plánetunni.

Vísindamenn hafa uppgötvað plánetu sem þykir, af öllum þeim plánetum sem við þekkjum í dag , einna líkust þeirri sem við byggjum. Plánetan Gliese 581g er sögð í hæfilegri fjarlægð frá sól sinni þannig að töluverðar líkur séu á því að þar sé vatn í fljótandi formi.

Það eykur svo á bjartsýni þeirra sem sjá fyrir sér að skipta um heimili í náinni framtíð að Gliese er tiltölulega nálægt jörðinni okkar, eða í um 120 trillíón mílna fjarlægð. Það þýðir að hún er í um 20 ljósára fjarlægð sem þykir ekkert sérstaklega löng vegalengd í samanburði við annað þarna úti. Steve van Vogt, stjörnufræðingur við háskólann í Santa Cruz í Kalíforníu segir að niðurstöður rannsókna á plánetunni gefi mikil tilefni til bjartsýni og að töluverðar líkur séu á því að þar væri hægt að búa.

Gliese 581g er á sporbaug um svokallaðan rauðan dverg sem er mun minni en Sólin okkar og er hún ein sex pláneta sem snúast um dverginn. Þyngdaraflið á Gliese er talið vera þrisvar til fjórum sinnum meira en á jörðinni og tekur það plánetuna 37 sólarhringa að fara einn hring um sína sól. Einn galli er þó á gjöf Njarðar en hann er sá að plánetan snýst ekki um sjálfa sig. Þannig snýr sami helmingur hennar alltaf að sólinni en hinn er ávallt í myrkri, eins og tunglið okkar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×