Skoðun

Að eiga sína eigin jörð

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar

Pólitískar deilur um Íbúðalánasjóð settu svip sinn á stjórnmál áranna fyrir Hrun. Skiptist fólk gjarnan í fylkingar með og á móti Íbúðalánsjóði og þá jafnframt með og á móti húsnæðislánum bankanna. Deilur um ríkisábyrgð á sjóðnum og samkeppni hans við bankakerfið stóðu árum saman. Hér var deilt um kosti og galla ríkisafskipta og markaðslausna í húsnæðislánum, líkt og einn kosturinn útilokaði hinn. Eftir á að hyggja skiluðu þessar deilur litlu: álitamál um ríkisábyrgð eru til að mynda enn óleyst.

Það er mikilvægt að rífa umræður um Íbúðalánasjóð upp úr gömlum hjólförum. Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis dró upp skýra og heldur dapurlega mynd af húsnæðislánum bankanna. Enginn getur því gagnrýnt Íbúðarlánsjóð með því að benda á glæstan feril bankakerfisins í húsnæðislánum. Ófarir bankanna eru heldur engin ástæða til að hefja Íbúðalánasjóð á stall og ræða um hann gagnrýnislaust. í rannsóknarskýrslu Alþingis eru breytingar á húsnæðislánakerfinu árið 2003 taldar ein af stærstu hagstjórnarmistökum síðari ára.

Alþingi hefur nú samþykkt að ríkissjóður geti lagt Íbúðalánasjóði til 33 milljarða og fyrir liggur að leggja þarf sjóðnum til aukið fjármagn á næsta ári. Þessi framlög eru ekki beinlínis heilbrigðisvottorð um starfsemi sjóðsins. Framlög upp á tugi milljarða kalla auðvitað á sérstaka rannsókn á starfsemi sjóðsins í aðdraganda Hrunsins. Alþingi ber að mínu viti skylda til að standa fyrir slíkri rannsókn. Vandamálum Íbúðalánasjóðs má ekki sópa undir teppið eða gera lítið úr þeim vegna gamalla pólitískra deilumála.

Umræðu um fjárhag og starfsemi Íbúðalánsjóðs verður að setja í samhengi við stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum almennt. „Sá maður sem á sína eigin jörð" sagði Bjartur í Sumarhúsum, „hann er sjálfstæður maður í landinu." Þetta var stefnan í hnotskurn. Séreignastefnan í húsnæðismálum hefur breyst í martröð fyrir fjölda Íslendinga, ekki síst ungt fólk. Okkar bíður það verkefni að skapa fjölbreyttari kosti í húsnæðismálum og endurskoða þjónustuhlutverk Íbúðarlánasjóðs í samræmi við það.






Skoðun

Sjá meira


×