Innlent

Ráðherrum ber ekki saman

Heimir Már Pétursson skrifar
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.

Ráðherrum byggðamála og sjávarútvegs ber ekki saman um áhrif ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um frjálsar veiðar á úthafsrækju, á veð rækjuútgerða hjá Byggðastofnun. Ráðherra byggðarmála segir að afskrifa hafi þurft 700 milljónir vegna þessa. Sjávarútvegsráðherra segir það ekki rétt.

Einar K. Guðfinnsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra spurði Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra, sem fer með byggðamál, út í áhrif ákvörðunar Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra um að gefa veiðar á úthafsrækju frjálsar á fjárhagslega stöðu Byggðastofnunar.

Iðnaðarráðherra svaraði þingmanninum hinn 4. október og sagði að almennt væru fyrirtæki í rækjuveiðum og vinnslu í skilum við Byggðastofnun. Á því væru hins vegar undantekningar og væri það mat Byggðastofnunar að vegna afnáms rækjukvótans sé óhjákvæmilegt að gjaldfæra 700 millj. kr. á afskriftareikning stofnunarinnar vegna þriggja skuldara af átta í greininni. Ljóst væri að staða Byggðastofnunar væri mjög erfið þar sem eiginfjárhlutfall stofnunarinnar 30. júní sl. væri komið niður í 5,18%. Meginástæða þessarar stöðu væri ófyrirséð framlög í afskriftareikning útlána sem námu þá samtals 1,1 milljarði kr., þar af 700 milljónir vegna þriggja rækjufyrirtækja.

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra.
Í fréttum Stöðvar tvö á föstudag sagði Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hins vegar þetta þegar hann var spurður hvort ekki væri rétt að auka þyrfti eigiðfé Byggðastofnunar vegna ákvörðunar hans:

„Nei alls ekki. Fjárhagsvandi Byggðastofnunar getur verið kominn vegna vanda þessara fyrirtækja og fleiri. En hann byggist ekki á því að hafa veð í óveiddri rækju."

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sagði jafnframt í svarinu til Einars K. Guðfinssonar að henni hafi ekki verið kunnugt um þessar ráðagerðir sjávarútvegsráðherra fyrir fram og samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun gilti það sama um þá stofnun. Ljóst sé að vandi Byggðastofnunar sé fyrst og fremst til kominn vegna afnáms rækjukvótans, en aðrir þættir spili líka þar inn í. Rætt hafi verið við fulltrúa fjármálaráðuneytisins um hvernig leysa megi fjárhagsvanda Byggðastofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×