Skoðun

Tækifæri í heilsugæslunni

Elsa B. Friðfinnsdóttir skrifar

Í grein í Fréttablaðinu í gær er fjallað um umræður á Alþingi þar sem þingmenn ræddu leiðir út úr þeim vanda sem viðvarandi fækkun heimilislækna skapar í heilsugæslunni um allt land. Tvær leiðir voru nefndar þ.e. að mennta nýja stétt aðstoðarmanna lækna eða að auka réttindi hjúkrunarfræðinga til að greina sjúkdóma eða ávísa lyfjum.

Viðfangsefni heilsugæslunnar eru fjölmörg og mikilvægt að þeir sem þangað leita geti fengið þjónustu frá þeim fagmönnum sem besta þekkingu hafa á hverju viðfangsefni. Heilsugæslan þarf að vera skipulögð þannig, bæði í áherslum og mannafla, að hún standi undir nafni sem heilsugæsla í stað þess að vera fyrst og fremst læknamóttaka. Því þarf að fjölga þeim fagstéttum sem taka virkan þátt í störfum innan heilsugæslunnar. Efla þarf hlutverk hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga, félagsráðgjafa, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa o.fl. fagstétta.

Það er ekki keppikefli hjúkrunarfræðinga að sjúkdómsgreina, það gera læknar. Hjúkrunarfræðingar geta hins vegar tekið að sér sérhæfða móttöku fyrir langveika sjúklinga, aldraða og unglinga. Þeir geta haft eftirlit með heilsu og líðan einstaklinga og sinnt heilsuvernd, heilsueflingu og forvörnum, unnið vistunarmat og umsóknir um ýmsa aðstoð s.s. hjálpartæki, stoðþjónustu og hvíldarpláss. Hjúkrunarfræðingar geta endurnýjað lyfseðla hjá einstaklingum sem hafa langvinna sjúkdóma. Þeir geta sinnt slysamóttöku og geta tekið að sér aukna þjónustu þar s.s. að sauma minni sár, leggja gifs, sjá um endurkomur o.fl.

Það er ekki þörf fyrir nýja heilbrigðisstétt til að leysa skort á heimilislæknum eða til að efla heilsugæsluna. Með samstarfi þeirra heilbrigðisstétta sem þegar ættu að starfa innan heilsugæslunnar og tilflutningi verkefna milli þeirra, er hægt að tryggja aukna þjónustu og að þeir sem til heilsugæslunnar leita fái ætíð þjónustu þeirra sem mesta þekkingu hafa á hverju sviði. Í slíku samstarfi felst þá jafnframt að hver og einn fagmaður leitar ráðgjafar og eftir atvikum vísar verkefnum til annarra eftir því sem við á. Þannig nýtist fagþekking og fjármunir heilsugæslunnar best.






Skoðun

Sjá meira


×