Skoðun

Kennarar taki þátt í prófkjörunum

Valgerður Eiríksdóttir skrifar

Erindi mitt er að hvetja kennara hvar í flokki sem þeir standa til að taka þátt í prófkjörum stjórnmálaflokkanna fyrir sveitastjórnarkosningarnar í vor. Þar er okkur gefinn kostur á að raða frambjóðendum á listana, og hafa með því áhrif á hvaða fólk kemur að því að stjórna í viðkomandi sveitafélagi.

Í þetta sinn fara kosningarnar fram á tímum mikils niðurskurðar í öllum geirum hins opinbera og skólakerfið mun ekki fara varhluta af því. Hér verður ekki spurt um hvort skera þurfi niður heldur hvað á að skera. Það skiptir því gífurlegu máli hvernig niðurskurðarhnífnum verður beitt og hverjir halda á honum.

Frambjóðendur eru nú í óðaönn að kynna sig og þau málefni sem þeir hyggjast leggja áherslu á. Sumir helga sig skipulagsmálum, aðrir samgöngumálum og enn aðrir uppeldis- og menntamálum. Menntamálin eru stærsti útgjaldaliður hvers sveitarfélags og jafnframt sá mikilvægasti. Það hlýtur því að skipta kennara og nemendur mjög miklu máli hverjir fara með þennan málaflokk og hversu öflugir talsmenn þeir eru fyrir hann.

Ég hvet ykkur til að líta yfir listana og leita eftir því fólki sem vill vinna að því að uppeldis-og menntamál verði varin eins og kostur er þegar skorið verður niður.

Ég ætla að taka þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar og forgangsraða á listann eftir því hverjir setja þennan málaflokk í forgang. Ég ætla að styðja Oddnýju Sturludóttur í 2. sætið eins og hún biður um. Oddný hefur sýnt að hún er verðugur fulltrúi menntamála í borginni og gegndi formennsku í menntaráði Reykjavíkurborgar á meðan 100 daga meirihlutinn var við völd. Á því tímabili fór hún m.a. til fundar við trúnaðarmenn í grunnskólum borgarinnar og hlustaði á hvað þeir höfðu að segja um mál sem varða skólasamfélagið. Oddný ætlar að halda áfram að vinna að uppeldis og menntamálum í borginni og leggja sig fram við að verja þau áföllum.

Látum nú ekki Icesave umræðuna draga úr okkur allan mátt og byrgja okkur sýn. Hafi einhverntíma verið ástæða fyrir fagfólk að beita áhrifamætti sínum þá er það við þessar aðstæður. Verum virkir þátttakendur.

Valgerður Eiríksdóttir kennari við Fellaskóla í Reykjavík.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×