Handbolti

Viðbrögð leikmanna: Þetta var ekkert eðlilega gaman

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Robert var magnaður í gær.
Robert var magnaður í gær. Mynd/DIENER/Leena Manhart

Íslensku leikmennirnir voru eðlilega í kampakátir með sigurinn gegn Dönum á Evrópumeistaramótinu í handbolta í gær. Þeir ræddu nokkrir við Vísi eftir leikinn.

„Þetta var ekkert eðlilega gaman," sagði Arnór Atlason en hann skoraði þrjú mörk í leiknum og var afar öflugur í varnarleiknum.

„Vörnin var ekkert eðlilega góð og það verður að hrósa þjálfarateyminu því við vissum nákvæmlega hvað við þurftum að gera í öllum aðgerðum. Þar fyrir utan var Bjöggi frábær í markinu."

„Við höfum nú sent skýr skilboð til hinna liðanna í mótinu en það má ekki gleyma því líka að við höfum einnig átt okkar slæmu stundir. Það hefur sýnt sig að ef við erum ekki á fullu allan tímann getum við bara gleymt þessu."

Róbert Gunnarsson nýtti eins og ávallt færin sín í sókninni gríðarlega vel og var sífellt ógnandi. Hann skoraði fjögur mörk og fiskaði einnig tvö víti.

„Loksins gekk það upp það sem við ætluðum okkur. I dag náðum við heilum leik þar sem við spiluðum góðan varnarleik og það var vörnin sem skóp þennan sigur."

„Þessi hópur hefur gengið í gegnum svo margt, bæði mikla gleði og mikla sorg og við stöndum og föllum sem einn maður. Ég vona því að við höfum nú fundið línuna og munum nú halda okkur á teinunum."

Það hefur oft borið meira á Ólafi Stefánssyni en í leiknum en hann átti mjög sterka innkomu í síðari hálfleik auk þess sem hann spilaði vel í vörninni, rétt eins og aðrir í liðinu.

„Ég var ánægður með svörunina frá vörninni og markverði. Þeir sýndu mikinn karakter eftir að hafa legið undir pressu síðustu tvo sólarhringa. Þeir voru ósáttir við sinn leik en svöruðu fyrri sig. Það er það sem skilur að meðalmennskuna og að vera aðeins betri en það."

Ásgeir Örn Hallgrímsson fékk meira að spreyta sig í leiknum en í fyrri leikjum á mótinu og stóð sig afar vel í vörninni þær mínútur sem hann lék.

„Það var mikill léttir að finna að við getum spilað vel. Það virðist þó vera lítið á milli þess að við spilum ömurlega illa og svo virkilega vel. Þetta datt inn að þessu sinni og þurfum við að byggja á því."

„En það sannaðist að fall er fararheill. Það er auðvitað miklu betra að hafa unnið Dani nú en að hafa unnið Serbíu og svo tapað þessum leik."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×