Erlent

Japönsk yfirvöld vilja ekki banna barnaklám

Barnaklám er mikil meinsemd í japönsku samfélagi að mati Goto.
Barnaklám er mikil meinsemd í japönsku samfélagi að mati Goto.

Japönsk yfirvöld hafa komið í veg fyrir að lög sem eiga að banna barnaklám þar í landi verði samþykkt.

Það var ákvörðun lýðræðisflokksins í Japan, sem fer með meirihluta í landinu, að samþykkja ekki lög um að það væri ólöglegt að hafa barnaklám undir höndum líkt og hér á landi.

Samkvæmt frétt Daily Telegraph þá er ákvörðun flokksins reiðarslag fyrir þrýstihópa sem berjast gegn barnaklámi í Japan.

Ástæðan fyrir því að stjórnvöld vilja ekki samþykkja bannið er vegna þess að þau telja slíkt bann skerða tjáningarfrelsi einstaklinga. Þá hafa stjórnvöld óskað eftir þrengri skilgreiningu á barnaklámi.

Samkvæmt frétt Daily Telegraph þá er Japan ofurveldi í barnaklámi (e. kiddie porn superpower).

Fyrir nokkrum vikum voru tuttugu einstaklingar handteknir í Japan fyrir að birta barnaklám á símamyndasíðu sautján ára ungmennis þar í landi. En þar áður var móðir handtekin fyrir að taka ósiðlegar myndir af barninu sínu og selja þær á netinu.

Þrýstihópar hafa bent á að árið 2009 hafi rúmlega 4000 tilkynningar um barnaklám borist til japanska yfirvalda. Þar af voru yfir 600 ákærðir í kjölfarið. Þrýstihóparnir telja að þetta sé aðeins toppurinn á ísjakanum.

Keiji Goto, lögfræðingur og formaður eins hópsins sem berst gegn barnaklámi, hvetur þingheim til þess að festa í lög bann við að einstaklingar eða aðrir aðilar megi hafa undir höndum barnaklám.

Goto bendir á að einu einstaklingarnir sem eru sáttir við seinagang ríkisins við að banna barnaklám, séu barnaníðingar.

„Við lítum á barnaklám sem það mögulega versta af öllu illu. Og það er erfitt að skilja hvernig myndir af nöktum barnslíkömum, sem eru bundnir með reipum, geti talist eitthvað sem er ásættanlegt," sagði Goto svo að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×