Erlent

Höfnuðu gegnumlýsingu á flugvelli

Óli Tynes skrifar
Brostu.
Brostu.

Tvær múslimakonur urðu fyrstu farþegarnir sem neituðu að fara í gegnumlýsingarvél sem komið hefur verið upp á flugvellinum í Manchester í Bretlandi.

Þær kusu að hætta við ferð sína til Pakistans.

Gegnumlýsingarvélin myndar fólk í fullri líkamsstærð. Hún virkar þannig að fólk stendur fyrir framan hana í fötum sínum en virðist nakið á myndinni sem vélin sýnir. Gagnrýnt hefur verið að hún sýni útlínur kynfæra.

Vélin eyðir út fötunum en sýnir alla fasta hluti sem fólk er með í vösunum eða innvortis. Fimmtán þúsund farþegar hafa farið í gegnum vélina síðan hún var sett upp.

Önnur kvennanna neitaði af trúarlegum ástæðum en hin af læknisfræðilegum.

Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt notkun þessara véla á þeim forsendum að þær brjóti á persónufrelsi, auk þess sem hætta sé á að fólki verði mismunað eftir þjóðerni og útliti.

Borgarráðsmaðurinn Afzal Khan sem var fyrsti borgarstjóri Manchester af asískum uppruna segir hinsvegar að yfirgnæfandi meirihluti múslima telji öryggi sitt mikilvægara en spurningar um slíkt.

Hundruð múslima hafi þegar farið í gegnum vélina án nokkurra vandkvæða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×