Erlent

WikiLeaks enn lokað

Julian Assange
Julian Assange

Öll önnur starfsemi en söfnun fjármuna hefur verið stöðvuð hjá WikiLeaks, vefnum sem sérhæfir sig í að birta leyndar upplýsingar sem fólk kemur til hans frá fyrirtækjum og opinberum stofnunum.

Á vefnum kemur fram að reynt sé að tryggja það fjármagn sem þurfi til að halda vefnum gangandi út árið. Fram kemur að rekstrarkostnaður ársins, að meðtöldum launagreiðslum, nemi 600 þúsund dölum, eða rúmum 76 milljónum króna. Hingað til hafi hins vegar ekki safnast nema 130 þúsund dalir, eða 16,5 milljónir króna.

WikiLeaks komst í nokkuð almenna umræðu hér heima þegar þar birtust upplýsingar úr lánabók Kaupþings og önnur gögn. Julian Assange, stofnandi vefjarins, sótti meðal annars landið heim í byrjun nóvember síðastliðinn til að kynna starfsemi hans. Í viðtali Fréttablaðsins við hann kom fram að vefurinn reiði sig að stórum hluta á frjáls framlög, en á forsíðu WikiLeaks segir að starfsemin sé fjármögnuð af „fólki sem berst fyrir mannréttindum, rannsóknarblaðamönnum, tæknifólki og almenningi“. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×