Innlent

Fyrsta íbúðin fyrir blinda og sjónskerta vígð

Tæplega 1500 Íslendingar eru blindir og sjónskertir
Tæplega 1500 Íslendingar eru blindir og sjónskertir Mynd: Valgarður
Fyrsta hæfingar- og endurhæfingaríbúð sem ætluð er blindum og sjónskertum einstaklingum á Íslandi verður vígð á morgun. Íbúðin er í húsi Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17 í Reykjavík. Undirbúningur hefur staðið yfir í nokkura mánuði og mun fyrsti íbúinn flytja inn fimmtudaginn 4. nóvember.

Hæfing og endurhæfing blindra og sjónskertra einstaklinga til að gera þeim kleift að lifa sjálfstæðu lífi og halda eigið heimili er mjög þarft verkefni. Þetta á ekki síst við í þeim tilfellum að gefa ungu fólki tækifæri á að spreyta sig í að flytja að heiman og búa eitt.

Um er að ræða samvinnuverkefni Blindrafélagsins samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Blindrafélagið sér um íbúðina og kostnað vegna hennar en Miðstöðin sér um endurhæfingu og ráðgjöf. Megin markmið með búsetuendurhæfingu er að einstaklingar öðlist færni við að halda heimili og fái til þess einstaklingsmiðaða þjálfun og kennslu.

Tæplega 1500 Íslendingar eru blindir og sjónskertir og af þeim eru tæplega 300 manns á vinnualdri og mun íbúðin reynast sérstaklega vel þeim sem eru að taka sín fyrstu spor í átt að sjálfstæðri búsetu, námi og atvinnu.

Guðbjartur Hannesson, félags- og heilbrigðismálaráðherra, afhendir fyrsta íbúanum lykla af íbúðinni á morgun klukkan tvö í Hamrahlíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×