Innlent

Yfir 100 þjóðir taka þátt í Alþjóðlegri athafnaviku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hillary Clinton er á meðal þeirra sem eru talsmenn vikunnar erlendis. Mynd/ afp.
Hillary Clinton er á meðal þeirra sem eru talsmenn vikunnar erlendis. Mynd/ afp.
Yfir 100 þjóðir munu taka þátt í Alþjóðlegri athafnaviku sem haldin verður í þriðja sinn dagana 15. - 21. nóvember næstkomandi. Í fréttatilkynningu frá nýsköpunar og frumkvöðlasetrinu Innovit kemur fram að aldrei áður hafi jafn margar þjóðir tekið virkan þátt í vikunni og gera aðstandendur ráð fyrir að samanlagt verði skipulagðir hátt í 40 þúsund fjölbreyttra viðburða. Markmiðið með vikunni er að hvetja til athafnasemi, frumkvöðlastarfsemi og nýsköpunar um allan heim.

Talsmenn Alþjóðlegrar athafnaviku hvetja íslensku þjóðina til athafnasemi og nýsköpunar. Um allan heim taka þjóðarleiðtogar, jákvæðar fyrirmyndir í viðskiptalífinu og frumkvöðlar þátt í stærsta hvatningarátaki um nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi sem fram hefur farið í heiminum.

Á Íslandi eru 30 sérlegir talsmenn vikunnar sem koma úr fjölbreyttum áttum þjóðfélagsins, en eiga það sameiginlegt að vera jákvæðar fyrirmyndir og vilja láta gott af sér leiða í atvinnusköpun á Íslandi.

Í hópi talsmanna á Íslandi eru meðal annarra ráðherrar nýsköpunar- og menntamála, forsvarsmenn atvinnusamtaka, frumkvöðlar smáfyrirtækja og forstjórar nokkurra af stærri nýsköpunarfyrirtækjum þjóðarinnar. Á meðal talsmanna vikunnar erlendis eru meðal annars Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Richard Branson athafnamaður, prins Charles frá Wales ásamt fjölmörgum öðrum þjóðarleiðtogum og athafnafólki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×