Innlent

Mikið tjón í eldsvoða í verkstæði við Eirhöfða í nótt

Mynd: VIlhelm
Mynd: VIlhelm

Mikið tjón varð þegar eldur kviknaði í bíl, sem stóð inni á verkstæði að Eirhöfða 17 í Reykjavík laust fyrir klukkan eitt í nótt.

Allir slökkviliðsmenn á vakt voru sendir á vettvang á mörgum bílum og var bíllinn á verkstæðinu alelda þegar að var komið. Greiðlega gekk að slökkva í honum en þá kom í ljós að eldurinn hafði náð að teygja sig í þak hússins og logaði þar í einangrun og bitum.

Bakvakt var kölluð út og börðust slökkviliðsmenn við eldinn í alla nótt, alveg fram á áttunda tímann, að slökkvistarfi lauk.

Húsið er þrískipt en þar sem eldveggir náðu ekki upp úr þakinu, barst eldur um allt þakið og varð tjón í hinum tveimur hólfunum líka, en slökkviliðsmönnum tókst að verja viðbyggingu.

Undir morgun hrasaði slökkviliðsmaður á þakinu og var hann fluttur á Slysadeild Landsspítalans, en er ekki alvarlega meiddur.

Eldsupptök eru enn ókunn, en rannsókn er að hefjast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×