Skoðun

Óskýrar leikreglur

Bjarni Gunnarsson skrifar
Óskýrar leikreglur eru að hrjá íslensku þjóðina á öllum vígstöðvum þessar stundirnar. Ber þar fyrst að nefna að allt fjármálakerfið er í uppnámi vegna þess að gengistryggð lán voru talin lögleg og dæmd lögleg í héraðsdómi og svo dæmd ólögleg í Hæstarétti. Þarna tel ég að lög nr. 38 frá 2001, „Lög um vexti og verðtryggingu", séu óskýr þar sem stendur að „heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé sé grundvöllur veðtryggingar vísitala neysluverðs". Þarna þurfti að grafa upp „anda laganna" til að skilja að öll önnur trygging sé óheimil samkvæmt lögunum. Af hverju stóð þá ekki í lögunum að EINUNGIS væri heimilt að verðtryggja með neysluvísitölunni?

Önnur nærtæk dæmi um óskýrar leikreglur er greiðsluþátttaka Landsvirkjunar í skipulagsmálum svæða við mögulega virkjunarstaði í Neðri-Þjórsá, kæra á útboði Landsvirkjunar á virkjunarframkvæmdum við Búðarháls, kæra á útboði Vegagerðarinnar á vegaframkvæmdum á Suðurlandsvegi og síðast en ekki síst Magma-málið.

Klúðrið með gengistryggðu lánin er rétt að byrja burtséð frá því hvernig þau verða reiknuð í uppgjöri aðila, því allir þeir sem hafa misst fyrirtæki sín, bíla eða aðrar eignir íhuga nú stöðu sína og munu leita leiða til að fá leiðréttingu mála sinna.

Varðandi óskýra dóma, þá vil ég nefna títtnefndan Hæstaréttardóm nr. 153/2010, Lýsing gegn Jóhanni og Trausta þar sem stefndu, Jóhann og Trausti, voru sýknaðir af kröfum stefnanda, Lýsingar. Þar stendur í kafla III í dómi héraðsdóms (sem var staðfestur af Hæstarétti) að „tenging skuldbindinga við gengi erlendra gjaldmiðla telst því til verðtryggingar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001". Síðar segir í kafla III: „Grundvöllur verðtyggingar samkvæmt samningi aðila, þ.e. ákvæði 4. og 7. gr. samningsins um gengistryggingu, er því í andstöðu við VI. kafla laga 38/2001 og því ógild." Síðasta afgerandi setningin í dómnum hljóðar svo: „Samningurinn er á hinn bóginn ekki ógildur í heild sinni." Þarna finnst mér, ólögfróðum manninum, augljóst hvað þessi dómur segir, nefnilega að ólögleg gengistrygging telst til verðtryggingar í skilningi VI. laga nr. 38/2001 og því hlóta þessi gengistryggðu lán sem flokkast með lánum þeim sem Hæstiréttur fjallaði um í dómi nr. 153/2010 að vera verðtryggð og að á þau falli samningsvextir lánanna. Þessa niðurstöðu tel ég enda vera eðlilega og sanngjarna í stöðunni og ekki er hægt að segja að hún sé viðkomandi neytendum í óhag þar sem þeir eru að borga u.þ.b. helmingi lægri vexti af þessum lánum miðað við meiri hluta landsmanna sem tóku „lögleg" verðtryggð lán á sínum tíma.

Þar sem útreikningar þeir sem sýndir hafa verið varðandi gengistryggðu lánin og mismunandi uppgjör þeirra eru óljósir, vil ég hér sýna hvernig 10 m.kr. kúlulán tekið í júní 2007 lítur út í júní 2010:

Gengistryggt lán (50% svissneskir frankar og 50% jen) með 3,5% vöxtum stæði í 27,5 m.kr.

Samkvæmt túlkun flestra sem tóku þessi gengistryggðu lán stæði lánið í 11,1 m.kr., þ.e. það væri ótryggt með 3,5% vöxtum. Samkvæmt því sem ég tel að dómur nr. 153/2010 segi, þá stæði lánið í 14,9 m.kr, þ.e. verðtryggt með 3,5% vöxtum.

Lánakjör sem meirihluti landsmanna býr við, þ.e. verðtryggingu og áætlaða 7% meðalvexti reiknast til að standa í 16,4 m.kr.

Á þessum samanburði sést hversu háar upphæðir liggja hér undir og finnst mér persónulega jafn óréttlátt að svona kúlulán standi annars vegar í 27,5 m.kr og hins vegar í 11,1 m.kr.

En þetta mál verður óleyst fram á haust, og þá er að vona að dómur komi fram sem verður ekki óskýr.




Skoðun

Sjá meira


×