Skoðun

Sömu mistökin aftur?

Björn B. Björnsson skrifar
Við gerð síðustu fjárlaga gerðu mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjárlaganefnd alvarleg mistök þegar framlög ríkisins til kvikmyndasjóða voru skorin niður um 250 milljónir króna.

Ætlunin var að lækka útgjöld ríkisins en ný rauð skýrsla um fjármögnun íslenskra kvikmynda sýnir ljóslega að tekjur ríkisins lækkuðu a.m.k. jafn mikið niðurskurðinum. Sparnaðurinn var því minni en enginn – en skaðinn verulegur.

Samkvæmt rauðu skýrslunni hefði kvikmyndaframleiðsla á Íslandi verið um 1600 milljónum króna meiri á þessu ári ef niðurskurðurinn hefði ekki komið til. Þessar kvikmyndir hefðu fengið um 100 milljónir króna í endurgreiðslu frá iðnaðarráðuneytinu (til viðbótar við þær 250 sem komið hefðu úr kvikmyndasjóðum) svo þessi fjárfesting ríkisins í kvikmyndaiðnaðinum hefði numið 350 milljónum króna.

Launaskattar af þessari starfsemi hefðu numið 360 milljónum eða aðeins hærri upphæð en framlög ríkisins. Eru þá ótaldar aðrar beinar og óbeinar tekjur hins opinbera af þessari atvinnustarfsemi. Sparnaður ríkisins af þessum „niðurskurði“ er með öðrum orðum minni en enginn!

Skaðinn sem niðurskurðurinn hefur valdið er hins vegar margvíslegur; í efnahagslegu tilliti höfum við misst af um 600 hundruð milljónum í erlendum fjárfestingum sem þessi kvikmyndaframleiðsla hefði dregið til landsins. Launagreiðslur upp á um 1200 milljónir eru farnar út um gluggann sem jafngildir um 200 störfum. Auk þess mun draga úr landkynningu á næstu misserum því íslenskar kvikmyndir gegna veigamiklu hlutverki á því sviði.

Menningarlegi skaðinn er sá að við höfum nú tapað tveimur íslenskum bíómyndum, fimm til tíu heimildarmyndum og tveimur leiknum íslenskum sjónvarpsþáttaröðum, sem nýlega var farið að framleiða hérlendis – og við höfum ekki sparað eina krónu!

Vissulega kemur niðurskurður kvikmyndasjóða fram sem sparnaður í menningar- og iðnaðarráðuneytum, en tekjutapið í fjármálaráðuneytinu er a.m.k. jafn mikið og því er ekki um neinn sparnað að ræða – aðeins fjárhagslegan og menningarlegan skaða.

Við fjárlagagerð á Írlandi á síðasta hausti gerði ríkisstjórnin þar tillögu um mikinn niðurskurð til kvikmyndasjóða líkt og gert var hér á landi. Munurinn er sá að þar á bæ var þingnefnd falið að skoða málið og niðurstaðan var sú að hætt var við að skera kvikmyndasjóðina niður eins og tillagan gerði ráð fyrir.

Á Íslandi var hins vegar flanað út í þennan „niðurskurð“ að óathuguðu máli með hörmulegum afleiðingum fyrir atvinnugrein sem getur skilað þjóðarbúinu góðum tekjum og skapað skemmtileg störf við framleiðslu á íslenskum menningarafurðum.

Rauða skýrslan sýnir staðreyndir málsins svart á hvítu svo spurningin sem við stöndum frammi fyrir núna er þessi: Getur áhugafólk um vitræn vinnubrögð í stjórnsýslunni, unnendur íslenskrar menningar og fólkið sem starfar í kvikmyndaiðnaðinum treyst því að sömu mistökin verði ekki gerð aftur í haust?



Skoðun

Sjá meira


×