Skoðun

Lykill að nýjum tækifærum

Ísólfur Gylfi Pálmason skrifar
Í dag verður tekin í notkun Landeyjahöfn en hún er í rauninni lykill að nýjum tækifærum og samvinnu milli Rangárþings og Vestmannaeyja. Loks verður höfn við suðurströndina að veruleika á okkar svæði.

Mörgum þótti þingsályktunartillaga Árna Johnsen fjarlæg þegar hann lagði hana fram á Alþingi og ég er stoltur af því að hafa verið einn af samflutningsmönnum Árna að þessari tillögu. Þingsályktunartillagan var samþykkt og nú er Landeyjahöfn orðin að veruleika með hjálp samgönguráðuneytisins, Siglingamálastofnunar og margra færra sérfræðinga og verklaginna snillinga. Um leið og höfnin opnar nýja og spennandi samgönguleið til og frá Vestmannaeyjum tengir höfnin Rangæinga og Vestmannaeyinga enn sterkari böndum en alla tíð hafa verið sterk tengsl milli þessara byggða. Margir Vestmannaeyingar eiga rætur sínar í Rangárþing og Rangæingar fóru gjarnan á vertíð til Vestmannaeyja og opnaði það bændum og bændasonum nýja sýn, um leið og þeir færðu björg í bú. Hér var um ákveðna manndómsvígslu að ræða ekki síður en smalamennsku í fjallferðum á haustin í gamla daga.

Það má segja að Landeyjahöfn sé lykill nýrra tækifæra bæði hér uppi á landi og í Vestmannaeyjum. Hér opnast nýjar víddir fyrir víðtæka samvinnu þessara byggðalaga. Landeyjahöfn er glæsilegt mannvirki þar sem margir hafa lagt hönd á plóginn. Það er ánægjulegt að aðalverktaki hafnarinnar sjálfrar er fyrirtækið Suðurverk sem er í eigu Dofra Eysteinssonar en lagður var grunnur að velgengni þess dugnaðarforks þegar hann, barnungur maðurinn, var einn þeirra sem gróf fyrir vatnleiðslunni til Eyja á sjöunda áratugnum og enn er Dofri að þrátt fyrir ýmiskonar kollsteypur verktakafyrirtækja á Íslandi. Verkið lofar svo sannarlega meistarann og alla þá meistara sem komið hafa að þessari þörfu og merkilegu framkvæmd. Það er ósk mín og annarra Rangæinga að blessun fylgi þessari framkvæmd og æðri máttarvöld verndi þá fjölmörgu sem eiga eftir að nýta sér þennan samgöngumáta og þau mannvirki sem nú hafa litið dagsins ljós íbúum Rangárvallasýslu, Vestmannaeyja og landsmönnum öllum til heilla. Mjög brýnt er að koma strax upp smábátahöfn við þetta myndarlega mannvirki því tilkostnaður er til þess að gera lítill meðan vinnuflokkar og vinnuvélar eru enn að störfum við hafnarmannvikrið. Þannig nýtast þessi mannvirki enn betur og þeir fjármunir sem varið hefur verið til verksins.




Skoðun

Sjá meira


×