Erlent

Hawking hræddur við geimverur

Óli Tynes skrifar
Stephen Hawking.
Stephen Hawking. Mynd/British Council

Stjarneðlisfræðingurinn og stærðfræðingurinn Stephen Hawking telur mjög líklegt að geimverur séu til en að mannkyninu sé ráðlegast að hafa hægt um sig og vona að þær taki ekki eftir okkur.

Discovery sjónvarpsstöðin hefur gert fræðsluþáttaröð um Hawking og kenningar hans. Hawking sem er fjölfatlaður og talar með hjálp gervils er einn virtast stjarneðlisfræðingur og hugsuður heims.

Í þáttunum fjallar hann meðal annars um líf á öðrum plánetum. Hann telur að það sé að mestu örverur og sýklar.

Þróaðri geimverur séu þó að öllum líkindum einnig til og það þurfi aðeins að líta til sögunnar til að sjá hvaða áhrif heimsókn þeirra gæti haft á jarðarbúa.

-Þegar Kólumbus kom til Ameríku var það ekki mjög gott fyrir frumbyggjana, segir prófessorinn.

Hann telur líklegt að slíkar verur séu á ferðinni vegna þess að þær hafi þegar þurrausið sína plánetu og ferðist nú um í gríðarlegum geimskipum til þess að leita að nýlendum til að arðræna.

Hawking segir að sínum stærðfræðiheila finnist fullkomlega eðlilegt að hugsa um geimverur.

Verkefnið sé að finna úr hvers eðlis þær séu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×