Erlent

Mannvinur dregur sig í hlé

Óli Tynes skrifar
Desmond Tutu er einstaklega glaðvær maður.
Desmond Tutu er einstaklega glaðvær maður.

Desmond Tutu erkibiskup í Suður-Afríku tilkynnti í dag að hann hefði dregið sig í hlé frá opinberu lífi. Hann á 79 ára afmæli í dag.

„Í stað þess að eldast virðulega í faðmi fjölskyldunnar, lesa, skrifa og biðja hef ég verið á endalausum flækingi á flugvöllum og hótelum," sagði erkibiskupinn. Hann ætlar þó að starfa áfram með Öldungunum svokölluðu. Það er hópur sem Nelson Mandela skipaði til þess að takast á við ýmsa óáran sem heiminn hrjáir.

Maður sátta og sameiningar

Desmond Tutu er dáður um allan heim fyrir manngæsku sína og víðsýni. Sem ungur prestur barðist hann ákveðið en friðamlega gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku.

Hann var oft handtekinn og fangelsaður. Þegar aðskilnaðarstefnan loks rann sitt skeið lagði hann ofuráherslu á fyrirgefningu.

Hann bjó til hugtakið Regnbogaþjóðin um Suður-Afríku, þar sem menn af öllum litarhætti ættu að búa saman í sátt og samlyndi. Hann var einnig formaður Sannleika- og sáttanefndarinnar þar sem fortíðin var gerð upp. Þar gátu svört fórnarlömb aðskilnaðarstefnunnar sagt sögu sína. Og þeir sem á þeim höfðu brotið fengu fyrirgefningu.

Desmond Tutu hlaut friðarverðlaunNóbels árið 1984.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×