Heklverk Patriciu eru einstök blanda af krúttskap og hryllingi sem vekur mismunandi viðbrögð hjá fólki að hennar eigin sögn. „Hekl hefur þetta sakleysislega yfirbragð og ull kallar fram hlýjar tilfinningar hjá fólki. Heklað blóð fær fólk oft til að fara að hlæja, jafnvel þó það sé að horfa á einhverja skelfilega senu," segir Patricia.

Hún hefur unnið listaverk úr ull frá því hún lauk námi í höggmyndalist snemma á tíunda áratugnum. „Mig langaði þá að vinna með efnivið sem væri enn ekki búinn að ná fótfestu í listum. Svo ég fór að hekla mín verk úr ull. Kollegar mínir gerðu mikið grín að mér fyrir að vinna með svo gamaldags efnivið. Og það var í raun erfitt, sem kona, að vinna með efni sem var svo rækilega tengt við húsfreyjulist."
En Patricia gafst ekki upp á ullinni og var fljótlega komin með algjörlega sérstöðu. Sýning hennar á Íslandi verður unnin í samstarfi við átta íslenska listamenn, þau Melkorku Huldudóttur, Kristínu Evu Rögnvaldsdóttur, Charlie Strand, Juliu Staples, Vigdísi Þormóðsdóttur, Hildi Hermanns, Jóa Kjartans og Magnús Helgason.
Hvert þeirra hefur fengið stórt heklað skordýr frá Patriciu til að skapa sögu í kringum og taka ljósmyndir af í náttúrulegum híbýlum þeirra. Dýrunum verður svo stillt upp á sýningu, eins og á náttúrugripasafni, ásamt ljósmyndum og sögum.- hhs