Skoðun

Stjórnarskrá Íslands hefur sannað gildi sitt – standa þarf vörð um hana

Tryggi Hjaltason skrifar

Það að stjórnarskrá Íslands sé gömul og einföld er ekki veikleiki, þvert á móti sýnir það hversu vel hún þolir tímans tönn. Hvenær hafa stór og smá vandamál íslensku þjóðarinnar í gegnum tíðina verið rakin til stjórnarskráarinnar?

Mikilvægt er að greina á milli stjórnarskráar og lagabálka. Stjórnarskrá er ætlað að endast í tugi ef ekki hundraði ára og á að vera þannig gerð að um hana skapist sátt og hægt sé að byggja lög landsins og réttindi þegna þess á. Þess vegna er mikilvægt að flækja stjórnarskrána ekki um of og að setja ekki ákvæði þangað sem ættu frekar heima annars staðar.

Förum varlega í allar breytingartillögur á stjórnarskrá Íslands, þessu mikilvægasta skjali okkar. Veljum rétt fólk til þess að endurskoða hana, fólk sem mun ganga til leiks af yfirvegun og fagmennsku.

Ég tel að eftirfarandi punktar séu mikilvægar og standa beri vörð um.

Að:

  • Góðum ákvæðum stjórnarskráarinnar og grundvallargildum sé ekki breytt í flýti eða reiði.
  • Stjórnarskráin sé skýr og auðskilin og gefur ekki rými til mistúlkunar.
  • Hlutverk forseta sé skýrt og ótvírætt.
  • Ríkisstjórn séu sett valdmörk til að tryggja réttindi borgaranna.
  • Stjórn Íslendinga á eigin málum sé tryggð með sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar.
  • Stjórnskipanin verður að tryggja réttaröryggi og stöðugleika við meðferð ríkisvalds og pólitíska kerfið á Íslandi verður að endurspegla vilja þjóðarinnar.
  • Stuðlað sé að sátt um eignarhald á auðlindum þjóðarinnar með sjálfbæra og arðbæra nýtingu að leiðarljósi.

Ef þú ert sammála ofangreindum punktum, þá bið ég þig að íhuga það að kjósa mig til stjórnlagaþings 2010.






Skoðun

Sjá meira


×