Skoðun

Þrískipting valdsins

Þórhildur Þorleifsdóttir skrifar

Löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald eru þrjár meginstoðir stjórnskipunar samfélagsins. Það er mikilvægt að styrkja þær og tryggja sjálfstæði þeirra, annars er þessi þrískipting marklaus. Mjög hefur hallað á löggjafarvaldið og dómsvaldið er ofurselt framkvæmdavaldi. Það er með öllu óásættanlegt að framkvæmdavaldið skipi hæstaréttardómara og önnur helstu embætti dómsvaldsins. Það á að standa faglega að skipan í embætti dómsvalds. Hvernig því verður best fyrirkomið get ég ekki fullyrt, þar yrði ég að leita til mér fróðari manna, líkt og með mörg önnur útfærsluatriði. Eina sem ég get fullyrt er að hin faglega og réttláta leið sem tryggir sjálfstæði dómsvaldsins liggur ekki í gegnum framkvæmdavaldið. Það myndi ég hafa að leiðarljósi.

Löggjafarvaldið stendur höllum fæti gagnvart framkvæmdavaldinu og hefur gert lengi, þó ásælni framkvæmdavaldsins virðist hafa aukist og á það ekki síst við um þá staðreynd að ráðherrar virðast geta farið sínu fram í stóru sem smáu og Alþingi gegnir oft ekki öðru hlutverki en því að samþykkja vilja ráðherrans. Alvarlegast er þó þegar ríkistjórn og/eða jafnvel einstaka ráðherrar geta tekið afdrifaríkar ákvarðanir án þess að þær komi til kasta þingsins og því þarf skýr ákvæði um valdmörk og ábyrgð.

Mér finnst sjálfsagt að ráðherrar hverfi af þingi og segi af sér þingsetu og hafi þar með ekki atkvæðisrétt. Það blasir við að þeir gegna engum almennum þingstörfum, enda ærið starf að sinna ráðherraembætti svo vel sé, og mæta einungis í þingið til að fylgja eftir eigin málum, svara fyrirspurnum, sem þeir munu auðvitað gera áfram, og í atkvæðagreiðslur.

Hvort varamenn taka sæti þeirra eða hvort þingmönnum fækkar sem fjölda ráðherra nemur er nokkuð sem þarf að gaumgæfa vel og ræða á stjórnlagaþingi. Mikilvægast er að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu.

Mér er fullljóst að viðkomandi ráðherra getur ekki endurheimt sæti sitt sem þingmaður hafi hann sagt af sér og því geta hagir hans breyst ef kemur til stjórnarslita eða breytinga á ráðherraembættum. Það er bara áhætta sem hver og einn tekur setjist hann í ráðherrastól. Það kann að draga úr ákafri löngun til að hljóta hnossið!

Ráðherrar geta að mínu mati komið úr röðum þingmanna eða ekki. Mér þykir einsýnt að forsætisráðherra verði að koma úr hópi þingmanna, enda hlýtur ríkisstjórn að vera mynduð til að framfylgja boðaðri stefnu. En um aðra getur staðið val bæði innan þings og utan. Það fer allt eftir málefnum, áherslum og því mannvali sem stendur til boða. En mikilvægt er í vali ráðherra að þar sé horfið frá þeirri stefnu sem hefur verið ríkjandi að einhverjir eigi, samkvæmt hefð, rétt á ráðherrastóli vegna búsetu eða sætis á framboðslista. En fyrir slíkt yrði girt ef landið yrði gert að einu kjördæmi. Ráðherra þarf að velja samkvæmt sömu reglum og almennt gilda við ráðningar í störf. Þar skal hæfni ráða.

Aukin lýðræðisleg áhrif kjósenda

Það er mikið rætt um persónukjör þessa dagana. Ég lýsi mig algerlega andsnúna þeim hugmyndum. Mér finnst ekki með nokkru móti það geta gengið upp að frambjóðandi eigi sér ekki bakhjarl í einhverri skilgreindri hreyfingu eða flokki sem hafa stefnu sem hann er þá fulltrúi fyrir.

Einstaklingur getur sett fram hvaða skoðun sem er, en hvernig á að tryggja að hann framfylgi henni, eða eigi sér skoðanabræður og systur inni á þingi sem tryggja framgang stefnunnnar. Almennt ber almenningur ekki mikið traust til núverandi flokka en sú skoðun að frambjóðendur þurfi að vera fulltrúi einhverrar stefnu er engin traustsyfirlýsing við ríkjandi flokkakerfi. Eins og dæmin og sagan sanna koma fram nýir flokkar eða hreyfingar og aðrir, eða þeir sömu, líða undir lok. Núverandi flokkakerfi er ekki náttúrulögmál og því er hægt að breyta ef vilji fóks stendur til þess.

Flestir vita að prófkjörin hafa gengið sér til húðar og skiluðu ekki þeim árangri sem margir væntu. Einn annmarki þeirra er að oftast má einungis flokksbundið fólk taka þátt í prófkjörum og skerðast þá strax lýðræðisleg réttindi þeirra sem kjósa að tilheyra engum flokki. Reyndar er það algjör minnihluti landsmanna sem er flokksbundinn.

Færar leiðir eru nokkrar og hugsanlega má nota fleiri en eina. Ein þarf ekki að útiloka aðra. Það má auðvelda til muna að endurraða eða strika út af listum án þess að eiga á hættu að eyðileggja atkvæði sitt. Það má líka hugsa sér að hreyfingar og flokkar setji einhvern tiltekinn fjölda á framboðslista og að kjósandinn raði sjálfur. Slíkt er auðvitað flóknara en er alls ekki óyfirstíganlegt, ekki síst þegar rafrænar kosningar verða algengari og fleiri sem ráða við þá aðferð.

Algengt umkvörtunarefni er að þurfa að einskorða sig við ákveðinn lista.

Maður - kona - er kannski fylgjandi í meginatriðum stefnu einhvers flokks eða hreyfingar en vill gjarnan styðja einhvern einstakling af öðrum lista. Við því er það ráð til að hver kjósandi fái tvö atkvæði - annað til að kjósa lista, sem hann getur þá lagfært að eigin ósk hvers - hitt atkvæðið notar hann til að kjósa einstakling.






Skoðun

Sjá meira


×