Skoðun

Um bótarétt ökumanna í órétti

Þórður Már Jónsson skrifar

Þrátt fyrir að mikið átak hafi átt sér stað í umferðaröryggismálum landsmanna er ljóst að umferðarslysum verður aldrei útrýmt, með tilheyrandi eigna- og líkamstjónum sem þeim fylgja. Líkamstjón eru mönnum oftar en ekki miklum mun þungbærari en eignatjón, enda geta afleiðingar þeirra fylgt mönnum alla ævi. Þegar menn verða fyrir líkamstjóni í umferðarslysum eiga þeir að jafnaði rétt til þess að fá það tjón sitt bætt. Það er nauðsynlegt að tjónþolar nýti sér þann skýra rétt sinn, að öðrum kosti verða þeir að sitja uppi með tjón sitt óbætt.

Þrátt fyrir að það geti talist hafa verið nokkuð upplýst umræða um þennan málaflokk, virðist enn vera furðu útbreiddur sá misskilningur að þegar ökumaður hefur orðið fyrir líkamstjóni í umferðarslysi sem hann á sjálfur sök á, að hann eigi ekki rétt til skaðabóta fyrir tjón sitt, eða jafnvel mun minni rétt. Staðreyndin er hins vegar sú að stór hluti iðgjalds hverrar bifreiðar fer í slysatryggingu ökumanns og eiganda, en sú trygging gerir ökumann jafn settan og farþega. Því er það alls ekki svo að ökumaður sem er í órétti eigi engan, eða minni, bótarétt ef hann verður fyrir líkamstjóni í umferðarslysi.

Hann á að jafnaði sama rétt og aðrir, nema ef sannað sé að hann hafi valdið slysinu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Það er mikilvægt að ekki sé uppi neinn misskilningur um þetta atriði, enda er það mörgum tjónþolanum óheyrilega þungbært að sitja uppi með óbætt tjón á líkama sem þeir hafa orðið fyrir í umferðarslysum, sem og auðvitað slysum annars konar.






Skoðun

Sjá meira


×