Erlent

Hætta talin á hryðjuverkum

Taj mahal í mumbaí Óttast er að hryðjuverkamenn fremji árásir í líkingu við Mumbaí-árásina árið 2008, þegar ráðist var á hótel og brautarstöð og tæplega 200 manns létu lífið. 
nordicphotos/afp
Taj mahal í mumbaí Óttast er að hryðjuverkamenn fremji árásir í líkingu við Mumbaí-árásina árið 2008, þegar ráðist var á hótel og brautarstöð og tæplega 200 manns létu lífið. nordicphotos/afp

Bandaríkin, ap Bandaríkjastjórn hefur varað Bandaríkjamenn í Evrópu við mögulegri hryðjuverkahættu í álfunni. Bandaríkjamenn sem búa eða ferðast í Evrópu eru hvattir til að huga betur að öryggi sínu, sérstaklega á opinberum stöðum.

Bandaríkjamenn telja að Osama bin Laden standi á bak við áætlanir um að ráðast á nokkrar evrópskar borgir. Í tilkynningu Bandaríkjastjórnar segir að evrópskar ríkisstjórnir hafi gripið til aðgerða vegna mögulegra hryðjuverkaárása. Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands, sagði í gær hættuna þar óbreytta og miklar líkur á árás. Þá hefur breska stjórnin varað borgara sína við því að ferðast til Þýskalands og Frakklands, þar sem hætta hafi aukist.

Bandaríkin telja að hryðjuverkamenn gætu notað ýmsar aðferðir og vopn til árása. Óttast er að reynt verði að fremja hryðjuverk í líkingu við þau sem voru framin í Mumbaí á Indlandi árið 2008.

Aðvörun Bandaríkjastjórnar er einu stigi neðar en formleg ferðaviðvörun, en slík viðvörun myndi líklega hafa í för með sér afbókanir á ferðum til Evrópu. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×