Innlent

Mótmæla lokun vínbúðar á Garðatorgi

Verslunarfólk á Garðatorgi óttast að lokun Vínbúðarinnar orsaki meiri niðursveiflu.Fréttablaðið/anton
Verslunarfólk á Garðatorgi óttast að lokun Vínbúðarinnar orsaki meiri niðursveiflu.Fréttablaðið/anton
Eigendur og starfsfólk fyrirtækja á Garðartorgi hafa sent áskorun til bæjaryfirvalda í Garðabæ um að fyrirhugaðri lokun Vínbúðar ÁTVR um áramót verði mótmælt. Bæjar­ráð kveðst ætla að leita skýringa hjá ÁTVR.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir ástæðuna fyrir lokun Vínbúðarinnar á Garðatorgi áður hafa komið fram. Það sé mat fyrirtæksins að búðin þjóni ekki Garðbæingum. Reksturinn sé óhagkvæmur og þar sem núverandi leigusamningur renni út um áramót hafi verið afráðið að loka þá.

„Ef maður ber saman Vínbúðina í Garðabæ við Vínbúðir í öðrum bæjarfélögum, eins og til dæmis Mosfellsbæ þar sem eru færri íbúar, þá er salan þar að meðaltali fjörutíu til fimmtíu prósentum minni,“ útskýrir Sigrún og segir þess utan hægt og bítandi draga úr sölunni á Garðatorgi.

„Við erum mjög áhyggjufull yfir meiri niður­sveiflu á Garðatorgi,“ segir í fyrrnefndri áskorun fyrirtækjanna á Garðatorgi. „Við vonumst til að þetta sé ekki „pólitískt viðhorf“ stjórnarflokkanna um breytta staðsetningu innan Garðabæjar til að styrkja verslun við Litlatún.“

Sigrún Ósk segir að ákvörðuninni verði ekki haggað þótt ekki sé útlokað að opnað verði annars staðar í Garðabæ síðar. „Við viljum horfa á svæðið sem er Hafnarfjörður, Kópavogur og Garðabær í heild og finna framtíðarlausn þar,“ segir aðstoðarforstjóri ÁTVR. - gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×