Lífið

Draugagangur á Bessastöðum

Rithöfundurinn Gerður Kristný semur söngleikinn upp úr barnabókum sínum.
Rithöfundurinn Gerður Kristný semur söngleikinn upp úr barnabókum sínum.

„Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri hafði samband og bað mig um að semja söngleik. Ég sló bara til," segir rithöfundurinn Gerður Kristný sem er að semja söngleik upp úr hinum vinsælu barnabókum sínum, Ballið á Bessastöðum og Prinsessan á Bessastöðum.

Frumsýning verður á stóra sviðinu í janúar. Bragi Valdimar, Baggalútur, semur tónlistina og leikstjóri verður Ágústa Skúladóttir. „Þetta er mjög skemmtilegt," segir Gerður, sem er að semja sinn fyrsta söngleik. Tíu ár eru aftur á móti liðin síðan hún samdi sitt fyrsta og eina leikrit, einleikinn Bannað að blóta í brúðarkjól. „Leikrit er auðvitað allt öðruvísi en skáldsaga og nú þarf ég að athuga hvaða atburði úr bókunum er skemmtilegt að sjá leikna á sviði," segir hún og bætir við að leikstjórinn Ágústa sé sprellsöm kona. „Ég get látið hana hafa 5 sentimetra af hugmynd og hún teygir þá upp í 27 sentimetra."

Söngleikurinn nefnist Draugurinn á Bessastöðum. „Draugurinn hleypir smá spennu í atburðarásina. Annars koma sömu persónur við sögu og í bókunum. Forsetinn, prinsessan, gröfustjórarnir, landnámshænan og svo auðvitað ritararnir þrír. Ég hlakka sérstaklega til að sjá þá á sviði." Jóhannes Haukur Jóhannesson mun leika forsetann og Þórunn Arna Kristjánsdóttir, sem er nýútskrifuð úr leiklistarskólanum, leikur prinsessuna.

Gerður hefur setið við skriftir undanfarna mánuði og hlakkar mikið til að sjá útkomuna. „Það á að fara að leiklesa von bráðar. Svo verða þetta fálkaorður og fjör eins og er í bókunum." - fb
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.