Erlent

Ísraelar trampa á Evrópusambandinu

Óli Tynes skrifar
Catherine Ashton barónessa.
Catherine Ashton barónessa.

Utanríkisráðherra Ísraels notaði heimsókn utanríkis- og öryggismálafulltrúa Evrópusambandsins til þess að verja þá ákvörðun ríkisstjórnar sinnar að byggja 1600 nýjar íbúðir í Austur-Jerúsalem.

Segja má að Ísraelar hafi þar launað Ashton barónessu lambið gráa. Í heimsókn í Kaíró í síðustu viku fór hún hörðum orðum um þessa ákvörðun.

Avigdor Liberman sagði á sameiginlegum blaðamannafundi hans og barónessunnar í dag að þessi krafa um að banna Gyðingum að reisa hús í Jerúsalem væri algjörlega óréttlát.

Óvenjulegt er að sameiginlegir blaðamannafundir stjórnmálaleiðtoga séu notaðir til þess að snupra á þennan hátt.

Barónessan brosti vandræðalega við þessi orð en endurtók ekki gagnrýni sína. Hún hvatti aðeins bæði Ísraela og Palestínumenn til þess að gera það sem þeir gætu til þess að hefja viðræður á nýjan leik.

Benjamín Netanyahu forsætisráðherra Ísraels hefur einnig varið þessa ákvörðun. Hann sagði að eins og Palestínumenn hefðu Gyðingar verið að byggja hús í Austur-Jerúsalem síðastliðin 40 ár.

Það hefði á engan hátt komið niður á Palestínumönnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×