Erlent

Merkel ýjar að brottrekstri Grikklands

Óli Tynes skrifar
Angela Merkel kanslari Þýskalands.
Angela Merkel kanslari Þýskalands.

Evrópusambandið heldur áfram að vandræðast með Grikkland. Þjóðarleiðtogar þess slá í og úr um hvort landinu verði hjálpað.

Aðildarríki sem eru utan evrusvæðisins líta ekki á þetta sem sitt vandamál. Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands hefur þannig sagt að ekki komi til greina að senda fé til Grikklands.

Mest hefur verið horft til Þýskalands sem hefur stærsta hagkerfi sambandsins. Mikill meirihluti almennings þar í landi er hinsvegar á móti því að aðstoða og er ýmislegt týnt til.

Til dæmis það að eftirlaunaaldur í Grikklandi er 63 ár og grískur almenningur tekur ekki í mál að hann verði hækkaður.

Þjóðverjar segja sem svo að þeir hafi engan áhuga á að senda peninga til Grikklands til þess að Grikkir geti hætt að vinna mörgum árum fyrr en þeir sjálfir.

Angela Merkel kanslari hefur verið tvíræð í þessu máli. Hún hefur lýst vilja til að hjálpa Grikkjum en er auðvitað meðvituð um skoðanir kjósenda sinna.

Hún hefur því einnig skotið föstum skotum á Grikki. Lengst gekk hún líklega í gær þegar hún sagði að lönd sem ekki fylgdu reglum evrusvæðisins ættu að vera brottræk.

Enginn vafi er á að þar átti hún við Grikkland. Samkvæmt reglum fá lönd ekki aðgang að myntbandalaginu nema halli ríkissjóðs sé undir þrem prósentum af þjóðarframleiðslu.

Það hefur verið upplýst að Grikkir beittu brögðum til þess að fela hina raunverulegu stöðu ríkisfjármála hjá sér.

Þeir töldu sér til tekna ýmsa liði sem hvergi í heiminum eru reiknaðir inn í ríkisfjármál.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×