Skoðun

Staða ábyrgðarmanna – stóðu bankarnir rétt að skjalagerð?

Árni Helgason skrifar

Nýfallinn dómur Hæstaréttar um stöðu ábyrgðarmanna í þeim tilfellum sem skuldari hefur fengið greiðsluaðlögun setur strik í reikninginn fyrir þá sem vilja fara í greiðsluaðlögun. Ákvæði sem átti að tryggja þessa vernd í lögum um ábyrgðarmenn var talið stangast á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og því að vettugi virðandi.

Samkomulag frá 2001

Ljóst er að þetta setur strik í reikninginn fyrir þá sem ætla í greiðsluaðlögun. Hins vegar er þó ekki víst að öll nótt sé úti enn hjá ábyrgðarmönnum. Þótt lögin um ábyrgðarmenn frá 2009 séu ekki afturvirk og gildi því ekki um ábyrgðir sem veittar voru á árunum fyrir hrun gegnir öðru máli um samkomulag frá 2001 milli stjórnvalda, fjármála­fyrirtækja og Neytendasamtakanna um notkun ábyrgða.

Greiðslumat skilyrði

Í samkomulaginu, sem leysti af sambærilegt samkomulag frá 1998, kemur fram sú mikilvæga regla að þegar ábyrgðar­maður skrifar upp á sjálfskuldarábyrgð eigi honum að hafa verið kynnt greiðslumat skuldara. Hið sama á við um þegar veðleyfi er veitt í eign. Kynna á veðleyfisgjafa greiðslumat í slíkum tilfellum og verður það að koma skriflega fram á þeirri yfirlýsingu sem ábyrgðarmaðurinn skrifar undir. Sé slíkt ekki gert hefur verið litið svo á að viðkomandi fjármálastofnun hafi brugðist skyldum sínum og veðið eða sjálfskuldarábyrgðin metin ógild. Þetta á við þótt ábyrgðar­maður sé nákominn skuldara, t.d. skipta fjölskyldutengsl ekki máli að þessu leyti, en að vísu hefur ábyrgð verið talin standa ef maki ábyrgist skuldbindingu.

Þetta hefur ítrekað komið fram í úrskurðum nefndar um viðskipti einstaklinga við fjármálafyrirtæki sem hefur þessi mál til umfjöllunar og í úrlausnum dómstóla. Þessar reglur eiga eins og áður sagði við um sjálfskuldarábyrgðir sem veittar voru í hinni miklu lánaþenslu í aðdraganda hrunsins. Í þessu samhengi verður að hafa í huga að ekki er nægjanlegt að við lánveitingu hafi ábyrgðarmaður eða veðleyfisgjafi skrifað undir eða hakað við að hann óski ekki eftir greiðslumati skuldara, ef lánsfjárhæðin er hærri en ein milljón króna. Greiðslumatið verður að hafa legið fyrir og verið aðgengilegt ábyrgðarmanni, ella stenst skuldbindingin ekki.

Þetta á þó ekki við um ábyrgðir vegna skulda einkahlutafélaga og einnig verður að hafa í huga að ákveðnar fjármálastofnanir voru ekki aðilar að samkomulaginu upphaflega, t.d. lífeyrissjóðirnir. Ábyrgðarmenn eiga þó í slíkum tilfellum rétt á að hafa fengið eðlilega kynningu á efni skuldbindingarinnar. Í öðrum tilfellum eiga ákvæði samkomulagsins við og greiðslumat verður að liggja fyrir.

Mikilvægt að kanna stöðu

Af þessum sökum er sérstaklega mikilvægt að ábyrgðarmenn og veðleyfisgjafar kanni hvort fjármálastofnanir hafi staðið rétt að skjalagerð og kynningu greiðslumats þegar sjálfskuldar­ábyrgðin var veitt. Eins og sjá má í úrskurðum nefndar um viðskipti einstaklinga við fjármálafyrirtæki eru mörg dæmi um að þessu hafi ekki verið sinnt réttilega af hálfu fjármálastofnana og full ástæða fyrir fólk sem er í þeirri stöðu að háar fjárhæðir kunna að falla á þau að kanna þessi atriði. Þetta á sérstaklega við þar sem svo virðist að aðrar tilraunir til að rétta hlut ábyrgðar­manna hafi farið forgörðum.

Frjálsir samningar - ábyrgðir

Að lokum má velta því upp hvort ekki mætti taka sjálfskuldar­ábyrgðir og veðleyfi í auknum mæli inn í greiðsluaðlögun og uppgjör skulda. Samkvæmt nýjum lögum um greiðslu­aðlögun er kröfuhöfum og skuldurum heimilt að gera frjálsan samning til greiðsluaðlögunar og ekkert því til fyrirstöðu að slíkur samningur taki líka til sjálfskuldarábyrgða og veðleyfa.










Skoðun

Sjá meira


×