Handbolti

Rakel Dögg: Hefðum getað gert betur í öllum leikjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Árósum skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir
Rakel Dögg Bragadóttir Mynd/Ole Nielsen
Landsliðsfyrirliðinn Rakel Dögg Bragadóttir segir að íslenska landsliðið sé ekki mjög langt á eftir þeim liðum sem Ísland var að spila við á EM í vikunni.

Ísland tapaði þó öllum þremur leikjunum sínum og er úr leik. Í kvöld tapaði liðið fyrir heimsmeisturum Rússa, 30-21.

„Niðurstaðan er þrjú töp og það er ótrúlega svekkjandi. Við vissum áður en við komum hingað að þetta yrði hrikalega erfitt. Það breytir því ekki að það er alltaf svekkjandi að tapa," sagði Rakel.

„Í öllum leikjunum finnst mér að við hefðum getað gert betur. En ég verð líka að horfa á jákvæðu hliðarnar og minnast á hversu mikilvæg og dýrmæt reynsla þetta er fyrir okkur."

„Við sjáum líka að við erum ekkert það langt á eftir þessum bestu liðum. Rússlandi og Svartfjallalandi er spáð mjög góðu gengi og við náðum að standa aðeins í þeim, sérstaklega Svartfjallalandi. Við erum ekkert það rosalega langt á eftir þeim eins og einhverjir hafa haldið áður."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×