Erlent

Sarkozy stokkar upp eftir kosningaósigur

MYND/AP

Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti hefur gert breytingar á ríkisstjórn sinni í kjölfar ósigurs í héraðskosningunum um liðna helgi.

Forsetinn hefur rekið ráðherra verkamannamála í ríkisstjórninni og stokkað upp mörgum öðrum ráðherrastólum en vinstrimenn fóru illa með flokk Sarkozys í kosningunum. Xavier Darcos, ráðherra verkamannamála, hafði verið í framboði í Aquitane héraði en tapað illa.

Tuttugu af ráðherrum Sarkozys buðu fram í kosningunum og þurftu þeir allir að lúta í lægra haldi fyrir mótframbjóðendum sínum. Kosningaúrslitin eru mikill ósigur fyrir Sarkozy og er þau talin auka líkurnar á að Sarkozy fái sterka mótframbjóðendur gegn sér í forsetakosningunum sem fyrirhugaðar eru árið 2012.

Forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, sem er íslendingum að góðu kunnur, hefur verið nefndur til sögunnar sem hugsanlegur mótherji og frambjóðandi Sósíalista og eins þykir hægrimaðurinn Dominique de Villepin líklegur til þess að skora Sarkozy á hólm.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×