Skoðun

Sund bannað börnum

Ómar Stefánsson skrifar

Dóninn ég, þurfti að lesa aftur yfir bréf mitt til Svandísar í Fréttablaðinu frá því á fimmtudaginn eftir að ég sá viðbrögðin. Ég sem hafði talið mig vera frekar kurteisan og ekki með sleggjudóma eða dónaskap og breytt meira segja fyrirsögninni úr "Leyfðu börnunum..." í „Viltu leyfa börnunum að fara í sund Svandís".

Það var nú annað í svari Svandísar til mín. En í grein hennar segir m.a. "hann furðar sig á" og "Ómar telur það hið versta mál", þetta eru ýkjur og er einfaldlega rangt. Ég skrifaði undir greinina sem "sundpabbi" en Fréttablaðið bætti við fyrrv. bæjarfulltrúi í Kópavogi, sem er önnur saga. En Svandís gerir töluvert úr því að ég sé bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi. Bara svo það komi skýrt fram, þá er ég ekki að endurspegla skoðanir Framsóknarflokksins í Kópavogi hvað þá heldur skoðanir bæjarstjórnar Kópavogs, heldur mínar eigin í þessu máli. Nóg um það.

Svandís segir að "Breytingin er að sjálfsögðu til komin vegna öryggissjónarmiða" Ég þóttist nú vita það, en sú tölfræði sem miðað er við er orðin 17-26 ára gömul og t.d. ekkert tekið tillit til þess að það hefur nánast orðið sprenging í ungbarnasundi síðan. Ég fullyrði að út frá öryggissjónarmiðum og smá skammti af forsjárhyggju þá væri álita mál hvort ekki ætti að banna eldri börnum að fara í sund án forráðamanna, jafnvel allt að 18 ára aldri. Það er best.

Þar sem rannsóknin, sem Svandís vísar í var gerð 1984-1993 og síðan könnun sem gerð var 1998, er orðin gömul hefði ég í hennar sporum látið gera nýja rannsókn. Allt eiga þetta vera tölur sem hægt er að nálgast hratt og örugglega og ættu að vera aðgengilegar í gegnum stjórnarráðið. Það er verið að taka mikilvæga ákvörðun sem bitnar á börnum.

Varðandi synd börn samkvæmt "gildandi skilgreiningum sundkennslu", langar mig að benda á að börn sem eru að fara í sund sér til gamans eru ekki að synda 10 ferðir bringu og 10 ferðir skrið. Þau eru að fara til þess að busla, leika við félaga og fara í rennibrautir og leiktæki. Þar sem hún vitnar í að "Foreldrar hafa í flestum tilfellum ekki skýra mynd af því hvort barnið er synt eða ekki og treysta um of á gæslu sundlaugarvarða" tel ég að foreldrar munu væntanlega halda áfram að treysta á gæslu sundlaugarvarða, því foreldrar munu eftir sem áður leyfa börnunum að fara busla í lauginni á meðan þeir eru í heitu pottunum.

Varðandi boð Svandísar um að ganga á hennar fund tel ég það óþarfa tímaeyðslu. Hún taldi ástæðulaust að gera nýja rannsókn til að afla nýrra gagna, en lét duga rannsókn frá síðust öld. Dæmin sanna að Svandís hefur engan áhuga á umræðu um sínar ákvarðanir. Því hef ég ákveðið að ræða þetta ekkert frekar, þar sem Svandís hefur nóg að gera við að vernda landið fyrir brjálaða fólkinu í landinu sem vill skapa atvinnu.






Skoðun

Sjá meira


×