Jónmundur Grétarsson gerði garðinn frægann fyrir fimmtán árum í leikritinu Bugsy Malone þar sem hann heillaði áhorfendur með sóp í hönd raulandi lagið „Á morgun“. Nú hefur hann ákveðið að dusta rykið af leikaraferlinum og fer með hlutverk Sams Cook í söngleiknum Buddy Holly. „Það hefur alltaf blundað í mér leikaradraumur og ég ætlaði að sækja um leiklistarskólann núna síðast en guggnaði svo vegna söngsins. Ég hef bókstaflega ekki sungið síðan ég var í Bugsy,“ segir Jónmundur sem hafði alltaf talið sér trú um að að hann gæti bara ekki sungið lengur.
„Kærasta mín þrýsti á mig að fara í prufurnar því ég var alveg á báðum áttum vegna söngsins,“ segir Jónmundur hlæjandi en hann þurfti æfa sig og róa taugarnar áður en hann mætti prufuna í sumar.
Á milli þess sem hann mætir á stífar æfingar í Austurbæ fyrir Buddy Holly æfir Jónmundur fótbolta með BÍ Bolungarvík og komst einmitt í fréttirnar um daginn fyrir að fagna marki sínu með eftirminnilegum hætti. „Ég var eiginlega píndur af liðsfélögum mínum í að taka lagið og þykjast sópa við hornfánann þegar ég skoraði. Það var eftir að Húsvíkingar, lið sem við vorum að spila við, spiluðu Bugsy Malone-lagið fyrir leik til að kynda upp í mér og ég svaraði því svona,“ segir Jónmundur. - áp

